Vörugjald af ökutækjum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 12:55:58 (4827)

2000-02-24 12:55:58# 125. lþ. 71.6 fundur 385. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (metangas- eða rafmagnsbílar) frv. 38/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[12:55]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Bara örstutt til nánari skýringar. Það er vissulega rétt að því er varðar metangasið að verið er að tala um tiltölulega fáa bíla á vegum Sorpu, kannski um 20, jafnvel ekki svo marga, en það er líka verið að tala um almennan innflutning á hinni tegundinni, þ.e. rafmagnsbílunum, bílum sem geta notað bæði rafmagn og bensín. Og þeir bílar eru að koma á markað hjá hinum almennu innflytjendum þannig að við vitum ekkert hvað þeir gætu orðið margir. Ég tel að það sé mjög ánægjulegt að almennir bílainnflytjendur skuli núna beita sér fyrir þessu, í það minnsta eitt umboð og væntanlega þá fleiri í kjölfarið. Það kann því að verða meiri notkun á slíkum bílum en við vitum nákvæmlega um.

En að því er varðar samkeppnisfærni og að sú leiðrétting sé kannski ekki aðalatriði málsins, þá finnst mér samt mikilvægt að þeir aðilar sem fara út í þetta þurfi ekki að bera hærri gjöld, þeim sé ekki refsað fyrir þetta og það sé þá frekar jafnað, þannig að Sorpa, þó að hún sé myndarlegt fyrirtæki, þurfi ekki að greiða meira fyrir þetta en ef hún væri að flytja inn venjulega bíla, þó svo í þeim skilningi sé það rétt að þar verður ekki um mikla samkeppni að ræða við einhverja aðra að því er varðar þessa 20 bíla.