Vörugjald af ökutækjum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 13:00:17 (4830)

2000-02-24 13:00:17# 125. lþ. 71.6 fundur 385. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (metangas- eða rafmagnsbílar) frv. 38/2000, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[13:00]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er umræða sem mætti bíða yfirferðar mats á umhverfisáhrifum. En það er alveg rétt að skógræktin er möguleiki. Við höfum farið fram á að landgræðsla sé metin umfram það sem aðrar þjóðir hafa viðurkennt. Eftir því sem ég best veit liggur ekki fyrir viðurkenning þeirra þjóða sem að Kyoto standa á þeirri aðferð sem við höfum lagt áherslu á. Samt sem áður hafa menn heitið því að skoða hana.

Við megum heldur ekki gleyma því að þó að möguleikarnir til skógræktar séu miklir þá takmarkast þeir samt líka af öðrum samningum. Við megum aldrei ganga það langt að við breytum náttúrufari landsins þannig að það sem hér er sérstætt hverfi vegna, hvað á ég að segja, mikils áhuga fólks á skógrækt sem sannarlega er til staðar. Við verðum að stíga hvert skref í þessum efnum varlega og til eru margar góðar aðferðir sem eru stjórnvöldum færar til þess að binda mengandi efni. Við eigum að skoða þær en þær mega ekki skaða náttúru landsins eða náttúrufar.