Atvinnuleysi á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 13:42:57 (4836)

2000-02-24 13:42:57# 125. lþ. 71.94 fundur 346#B atvinnuleysi á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[13:42]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Staða atvinnumála á landsbyggðinni er nokkuð misjöfn en sums staðar hún mjög alvarleg og menn verða að horfast í augu við þann gríðarlega vanda. Það er t.d. alveg nýtt á Vestfjörðum að við stöndum skyndilega frammi fyrir því að þar fer atvinnuleysi vaxandi. Atvinnuleysi á Vestfjörðum núna er talsvert meira hlutfallslega en það er á höfuðborgarsvæðinu og ég hef ekki upplýsingar um að það hafi gerst í annan tíma. Þetta er mjög alvarlegt mál, ekki síst í ljósi þess að atvinnuleysið er líka mjög staðbundið þannig að það er hlutfallslega býsna mikið til að mynda á Ísafirði og er farið að hafa veruleg áhrif. Atvinnuleysið er ekki bara bundið við einstaka starfshópa. Það er til meðal sjómanna, landverkafólks og það mun hafa þau áhrif að tekjusamdrátturinn í þjónustugreinunum hjá sveitarfélaginu verður mjög tilfinnanlegur þegar áhrifin verða komin fram að fullu.

Þetta segir hins vegar ekki alla söguna. Mjög margir hafa flutt brott, horfið frá því ótrygga ástandi sem hefur verið á landsbyggðinni og við höfum líka upplifað það að sums staðar, m.a. á Vestfjörðum, hafa meðaltekjur verið að fara lækkandi, en meðaltekjur á Vestfjörðum hafa lengst af verið með þeim hæstu í landinu vegna þess hve margir sjómenn taka þátt í atvinnulífinu þar.

En það þýðir ekki bara að harma hlutinn sinn. Við verðum samhliða þessu að reyna að leita lausna og til eru ýmsar lausnir. Það þýðir hins vegar ekki að horfa fram hjá því að mjög margt af þessu er mjög erfitt. Það er ákaflega dýrt að endurheimta aflaheimildir þegar aflaheimildirnar kosta 850 kr. á hvert kíló þorsks. Við verðum þess vegna að leita leiða til þess m.a. að fiskveiðistjórnarkerfið sé hagfellt hinum minni byggðum og við eigum í því sambandi að leita fyrirmynda í skipulagi sem við höfum komið upp fyrir smábátana sem hafa bjargað mjög miklu mjög víða. Það er líka hægt að hraða útboði á opinberum framkvæmdum. Það er hægt að beina þjónustu ríkisins til fyrirtækja t.d. í tækniþjónustu út á land og fleira er hægt að gera í þessum efnum. Ég tek undir með hæstv. starfandi félmrh. að það á að gefa (Forseti hringir.) Byggðastofnun auknar heimildir til þess að leggja meira undir og e.t.v. taka meiri áhættu en gert hefur verið (Forseti hringir.) til þess að byggja upp atvinnulífið þar sem þörf er á.