Atvinnuleysi á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 13:45:25 (4837)

2000-02-24 13:45:25# 125. lþ. 71.94 fundur 346#B atvinnuleysi á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[13:45]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hefur jöfnun lífskjara átt sér stað svo um munar síðustu missirin landsbyggðarfólki í hag? Eru atvinnumál í betra horfi? Hafa rekstrarskilyrði fyrirtækja batnað? Því miður er svarið nei. Fasteignagjöld úti á landi hafa hækkað þrátt fyrir að söluverð á íbúðarhúsnæði á sömu svæðum hafi lækkað. Þenslan á suðvesturhorninu rýrir kjör á landsbyggðinni. Flutningskostnaður hefur hækkað og álögur hækka flutningskostnað og vöruverð. Atvinnuleysi hefur aukist í byggðum sem tapað hafa aflakvóta sínum. Tekjur fólks í mörgum sjávarbyggðum hafa dregist verulega saman vegna vöntunar á fiskikvóta og atvinnu. Engin hátekjustörf hafa fylgt takmarkaðri nýsköpun í atvinnurekstri, fjarvinnslu og ferðamannaþjónustu. Gengið er fast en kostnaðurinn vex. Vextir lána hafa snarhækkað og eru nú á annan tuginn í prósentum talið. Sé lántökugjald meðtalið er kostnaður fast að 20%. Lendi fyrirtæki í vanskilum eru vextir orðnir 20,5%. Vanskil geta fylgt verkefnaleysi þjónustufyrirtækja sem fá lítið af viðhalds- og viðgerðaverkefnum þegar aflakvótinn og skipin eru farin úr plássinu. Því miður nær höfuðborgarþenslan í byggingu og þjónustu ekki út á land. Þar er engin þensla í verkefnum eða atvinnu. Hins vegar nær kostnaðurinn samfara höfuðborgarþenslunni út á land og veldur þar beint og óbeint lakari lífskjörum.

Fyrir rúmum áratug voru 45% alls botnfisk- og flatfiskafla fryst í landi. Nú er hlutur landfrystingar innan við 30%. Á sama tíma hefur sjófrystingin vaxið úr tæpum 10% í 30%. Kvótinn hefur verið keyptur af strandveiðiflotanum og þau skip gerð kvótalaus. Kvótarisar hafa orðið til og veldi þeirra mun vaxa enn frekar í óbreyttu kvótabraskskerfi. Tillögur hafa komið fram um breytingar svo sátt verði möguleg. Undir þær er lítt tekið af stjórnvöldum. Nú síðast á viðskiptaþingi Verslunarráðs var því lýst yfir að sátt væri ekki í sjónmáli.