Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 14:04:33 (4845)

2000-02-24 14:04:33# 125. lþ. 71.7 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[14:04]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Ísland er bundið af tilskipunum Evrópusambandsins, annars vegar tilskipun 85/337/EBE og hins vegar 97/11/EB í tengslum við mat á umhverfisáhrifum. Tilskipun ráðsins 85/337/EBE um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið var tekin upp í lögum nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, í samræmi við þær skyldur sem Ísland gekkst undir í tengslum við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði.

Tilskipun ráðsins 97/11/EB um breytingu á tilskipun 95/337/EBE felur í sér umtalsverðar breytingar og það miklar að nauðsynlegt er að endurskoða núgildandi lög um mat á umhverfisáhrifum. Þegar fyrir lá að endurskoða þyrfti lög nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, með hliðsjón af tilskipun 97/11/EB var ákveðið að skipa nefnd sem fékk það hlutverk að endurskoða lögin.

Í skipunarbréfi nefndarinnar segir að hlutverk nefndarinnar sé að endurskoða lög um mat á umhverfisáhrifum með hliðsjón af fenginni reynslu frá því að lögin öðluðust gildi og að vinna út frá gögnum sem ráðuneytið og skipulagsstjóri ríkisins höfðu tekið saman. Auk þess var nefndinni ætlað að fella inn í lögin tilskipun Evrópusambandsins 97/11/EB um breytingu á tilskipun 85/337/EBE um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið, en tilskipunin tók gildi 14. mars 1999 hjá Evrópusambandinu. Hér á landi átti hún að öðlast gildi sex mánuðum eftir að hún hefði verið samþykkt í sameiginlegu EES-nefndinni en það var gert 26. febrúar 1999 þannig að lögin hefðu í reynd átt að öðlast gildi síðasta haust hér á landi. Var nefndinni einnig falið að leggja mat á hvort fella ætti lögin um mat á umhverfisáhrifum inn í ný skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997, eða halda þeim sem sérstökum lögum á sama hátt og verið hefur.

Nefndin leitaði víða fanga og sendi út drög að frv. til umsagnar til fjölmargra aðila og vísast um það nánar til almennra athugasemda með frv. Nefndin skilaði áliti í desember 1998 og er frv. það sem hér er mælt fyrir að mestu leyti byggt á tillögum nefndarinnar.

Endurskoðunarnefndin telur ekki ástæðu til þess að fella lög um mat á umhverfsiáhrifum inn í ný skipulags- og byggingarlög og bendir á að lög um mat á umhverfisáhrifum séu viðamikil og hafi sjálfstæðan sess í þjóðfélaginu. Framkvæmd laganna sé þar að auki algjörlega á ábyrgð ríkisins, en skipulags- og byggingarlög eru hins vegar að mestu leyti á verksviði sveitarstjórna. Löggjöf um mat á umhverfisáhrifum verði aðgengilegri almenningi sé hún í sérstökum lagabálki.

Virðulegur forseti. Ég mun á eftir fara yfir helstu breytingar og nýmæli frv.

Í I. kafla frv. er fjallað um markmið, gildissvið og skilgreiningar.

Þó 1. gr. þar sem fjallað er um markmið sé efnislega óbreytt frá gildandi lögum er reynt að skilgreina þau betur. Markmiðin eru þríþætt í meginatriðum.

Í fyrsta lagi að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd sem kann að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif verði farið fram á mat á umhverfisáhrifum. Litið er á mat á umhverfisáhrifum sem mikilvægt tæki stjórnvalda til að ná fram markmiðum í umhverfismálum og stuðla að sjálfbærri þróun og að úrskurðaraðili, þ.e. Skipulagsstofnun, fái nauðsynlegar upplýsingar til að geta tekið ákvörðun um tiltekið verkefni með fulla vitneskju um hvaða líkur eru á því að verkefnið hafi veruleg áhrif á umhverfið.

Í öðru lagi er það markmið laganna að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta til þess að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmda á umhverfið.

Í þriðja lagi er reynt að tryggja aðkomu almennings að mati á hinni fyrirhuguðu framkvæmd með því að kynna umhverfisáhrif framkvæmdanna og stuðla að því að almenningur komi að athugasemdum og upplýsingum áður en úrskurðað er um matið. Einn helsti tilgangur áðurnefndar tilskipunar 97/11/EB er að tryggja sem best aðkomu almennings að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar.

Í 2. gr. frv. þar sem fjallað er um gildissvið kemur fram að lögin gilda um allar framkvæmdir hvort heldur er á landi eða sjó innan íslenskrar mengunarlögsögu sem er hin sama og efnahagslögsagan en ekki einungis á landi að stórstraumsfjöruborði eins og nú er. Hér er um veigamikla breytingu að ræða ef framkvæmdir sem ekki hafa verið á landi eða innan stórstraumsfjöru svo sem efnistaka á hafsbotni falla ekki undir gildandi lög.

Ein af meginbreytingum með frv. er fólgin í 5. gr. Í staðinn fyrir að telja upp í sjálfum lögunum eins og nú þær framkvæmdir sem ætíð skulu fara í mat er í 5. gr. skírskotað til 1. viðauka með frv. en þar eru taldar upp allar þær framkvæmdir sem matsskyldar eru samkvæmt frv. og skulu því ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum. Í tilskipun 97/11/EB eru gerðar lágmarkskröfur til aðildarríkjanna og skulu þær framkvæmdir sem taldar eru í 1. viðauka við tilskipunina ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum. Mun ég fjalla sérstaklega um 1. viðauka síðar.

Í 5. gr. er umhvrh. enn fremur veitt heimild til þess að ákveða að þegar fleiri en ein framkvæmd eru fyrirhugaðar á sama svæði megi meta umhverfisáhrifin sameiginlega. Hér er um breytingu að ræða frá gildandi lögum þar sem framkvæmdir eru aðgreindar.

Einnig er lagt til það nýmæli í 5. gr. að ráðherra geti heimilað að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar skuli fara fram með öðrum hætti en fyrirskipað er í lögunum og er þessi tillaga sett fram í ljósi reynslunnar þar sem sumar framkvæmdir eru þess eðlis að útilokað er að ákveða fyrir fram nákvæmlega staðsetningu og má þá nefna sem dæmi borun rannsóknarholu. Það á þó að vera tryggt að ekki verði um lakari málsmeðferð að ræða en lögin kveða á um enda segir að matið skuli vera jafngilt þeirri málsmeðferð sem mælt er fyrir um í lögunum. Í slíkum tilvikum ber framkvæmdaraðila að sækja sérstaklega um undanþágu og rökstyðja beiðni sína ítarlega. Áður en ráðherra tekur ákvörðun skal hann leita álits Skipulagsstofnunar, leyfisveitanda og annarra aðila eftir því sem við á enda er ekki síður þörf á að vanda til málsmeðferðar þegar veitt er undanþága en í venjulegum tilvikum. Síðan skal ráðherra tilkynna sameiginlegu EES-nefndinni á hvaða forsendum undanþágan er veitt og láta sameiginlegu EES-nefndinni í té þær upplýsingar sem almenningur hefur aðgang að. Rétt er að benda á að þessi undanþága er í samræmi við tilskipun 97/11/EB þar sem heimilt er í sérstökum tilvikum að undanskilja sérstakar framkvæmdir ákvæðum tilskipunarinnar með öllu eða að hluta með þeim skilyrðum sem að framan greinir.

Í 6. gr. er lagt til breytt fyrirkomulag frá gildandi lögum hvað snertir þær framkvæmdir sem ekki ber skilyrðislaust að setja í mat heldur að tilkynna og ákveða í framhaldi af því hvort meta skuli. Lagt er til það fyrirkomulag sem tilskipun 97/11/EB gerir ráð fyrir, þ.e. að taldar eru upp í 2. viðauka með frv. þær framkvæmdir sem eru tilkynningarskyldar. Skipulagsstofnun ákveður síðan hvort meta skuli framkvæmdina. Byggir viðaukinn á 2. viðauka tilskipunar 97/11/EB og skal skoða hvert tilvik um sig og síðan taka mið af þeim mörkum eða viðmiðunum sem sett eru. Við það mat ber fyrst og fremst að taka tillit til þeirra viðmiðana sem kveðið er á um í 3. viðauka með frv. sem að mestu samsvarar 3. viðauka með tilskipun 97/11/EB.

Þetta hefur í för með sér að þær framkvæmdir sem taldar eru upp í 2. viðauka við frv. skuli háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis, staðsetningar eða væntanlegra umhverfisáhrifa. Sé hin fyrirhugaða framkvæmd meðal þeirra sem taldar eru upp í 2. viðauka frv. ber framkvæmdaraðila að tilkynna Skipulagsstofnun hana og skal stofnunin taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli metin og skal stofnunin við ákvörðunina fara eftir viðmiðunum í 3. viðauka. Ég mun síðar, virðulegur forseti, gera stuttlega grein fyrir 2. og 3. viðauka. Enn fremur er lagt til að almenningur geti tilkynnt framkvæmdir til stofnunarinnar eða borið fram fyrirspurn um þær sem taldar eru upp í 2. viðauka. Markmiðið með ákvæðinu er að auðvelda almenningi aðkomu að málinu og að stuðla að því að þær framkvæmdir sem eru í 2. viðauka verði tilkynntar. Til glöggvunar og samanburðar er rétt að benda á að samkvæmt 5. gr. gildandi laga eru ákveðnar framkvæmdir skilyrðislaust matsskyldar. Í 6. gr. gildandi laga voru hins vegar ákvæði sem heimila ráðherra að ákveða að tilteknar framkvæmdir sem þannig háttar til um skuli metnar. Meginbreytingin felst í því að í staðinn fyrir heimildarákvæði fyrir ráðherra eru framkvæmdir settar á sérstakan lista og eru tilkynningarskyldar og það er Skipulagsstofnunar að taka ákvörðun um matsskylduna. Hafa ber í huga að hægt er að kæra allar ákvarðanir Skipulagsstofnunar til umhvrh. með stjórnlegri kæru.

Í IV. kafla frv. er fjallað um málsmeðferð vegna matsskyldra framkvæmda og lögð til veruleg breyting á málsmeðferðinni með það að markmiði að einfalda matsferlið. Lagt er til að matsferlið hefjist með því að framkvæmdaraðili geri tillögu til Skipulagsstofnunar að matsáætlun, sbr. nánar 8. gr. Markmiðið, fyrir utan að einfalda ferlið, er að framkvæmdaraðili leggi fram þegar í upphafi á viðhlítandi hátt þær upplýsingar sem krafist er og að Skipulagsstofnun segi til um hvaða upplýsinga framkvæmdaraðili skuli afla. Skipulagsstofnun ber í framhaldi af því að taka ákvörðun um tillögu framkvæmdaraðila innan fjögurra vikna. Þegar kemur að sjálfri matsskýrslunni á þetta að liggja fyrir en í dag er það oft svo að eftir að frumatsskýrslan liggur fyrir koma fram ábendingar um það sem á vantar eða betur mætti fara. Á þennan hátt gerir framkvæmdaraðili tillögu til Skipulagsstofnunar að matsáætlun eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og kostur er og ber framkvæmdaraðila einnig að kynna tillögu að matsáætlun fyrir umsagnaraðilum og almenningi og hafa samráð við Skipulagsstofnun. Þannig munu hlutaðeigandi gögn og upplýsingar liggja fyrir áður en farið er í sjálft matsferlið sem er svokölluð matsskýrsla og fjallað er um í 9. gr. frv. Matsáætlun verður grundvöllur matsskýrslu.

[14:15]

Í 9. gr. er fjallað um matsskýrslu vegna matsskyldra framkvæmda sem er næsta skref á eftir matsáætlun. Skal gerð og efni matsskýrslu vera í samræmi við matsáætlun. Í 2. mgr. eru sérstaklega tilteknir þær þættir sem taka ber tillit til við mat á umhverfisáhrifum og er þar tekið mið af IV. viðauka við tilskipun 97/11/EB þar sem er að finna leiðbeinandi reglur en lýsa skal þeim þáttum fyrirhugaðrar framkvæmdar sem líklegast er talið að geti valdið áhrifum á umhverfið. Helstu breytingar frá gildandi lögum felast í því að lagt er til að framkvæmdaraðili geri grein fyrir helstu möguleikum sem hann hefur kannað og til greina koma svo sem varðandi tilhögun og staðsetningu. Þetta hefur mikla þýðingu þar sem samanburður á helstu möguleikum er ein helsta forsenda þess að hægt sé að meta umhverfisáhrif hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar. Enn fremur er það nýmæli að lýsa skuli fyrirhugðum mótvægisaðgerðum og gera stutta og skýra samantekt um matsskýrsluna og niðurstöður hennar en þýðing slíkrar samantektar er að hún gerir skýrsluna mun aðgengilegri fyrir almenning. Breytingar á matsferlinu eru ekki síst hugsaðar með það fyrir augum að almenningur eigi greiðan aðgang að upplýsingum alveg frá fyrstu stigum máls og að upplýsingarnar séu skilmerkilegar. Allt þjónar þetta þeim tilgangi að auka þátttöku almennings í ferlinu og ýta á almenning að hafa skoðun á málinu og lýsa henni.

Í 11. gr. er fjallað um úrskurð Skipulagsstofnunar en þar kemur fram að innan fjögurra vikna frá því að frestur til athugasemda skv. 10. gr. rennur út skal stofnunin kveða upp rökstuddan úrskurð um mat á umhverfisáhrifum á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Lögð er til sú grundvallarbreyting á frv. að ekki er gert ráð fyrir svokölluð frummati, sbr. 8. gr. gildandi laga, og frekara mati, sbr. 11. gr. Samkvæmt gildandi lögum getur skipulagsstjóri ríkisins, fallist hann ekki á framkvæmd eftir frummat, ekkert annað gert en að ákveða frekara mat. Honum er ekki heimilt að synja framkvæmd á því stigi í dag. Í frv. er gert ráð fyrir einu matsferli þannig að verði krafist ítarlegra mats verður það hluti ferilsins en ekki sjálfstætt mat. Einnig er hægt að synja framkvæmd án þess að krefjast ítarlegra mats.

Þar sem frv. kveður þannig á um breytta tilhögun matsferils er lagt til að Skipulagsstofnun kveði upp úrskurð innan fjögurra vikna frá því að frestur til athugasemda rennur út í stað þriggja vikna eins og gert er í gildandi lögum. Skv. 11. gr. getur Skipulagsstofnun tekið ákvörðun um eftirfarandi:

a. fallist er á viðkomandi framkvæmd, með eða án skilyrða,

b. krafist er ítarlegra mats á framkvæmdinni í heild eða einstökum hlutum hennar eða

c. lagst er gegn viðkomandi framkvæmd vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa.

Þegar krafist er ítarlegra mats skal auglýsa það með sama hætti og matsskýrslu en þó skal aðeins auglýsa þá þætti sem krafist er ítarlegra mats á. Skipulagsstofnun hefur fjórar vikur til að úrskurða eftir að skýrslan um ítarlegra mat liggur fyrir.

Í 5. mgr. 11. gr. er það nýmæli lagt til að Skipulagsstofnun sé heimilt að binda framkvæmd því skilyrði að framkvæmdaraðili gangist fyrir frekari rannsóknum á tilteknum atriðum fyrir og eftir hina fyrirhuguðu framkvæmd í þeim tilgangi m.a. að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfið og til að ganga úr skugga um hvaða afleiðingar framkvæmdin hafi í för með sér.

Í 6. mgr. 11. gr. er lögð til sú breyting að Skipulagsstofnun geti gert minni háttar breytingar á úrskurði sínum um mat á umhverfisáhrifum eftir birtingu hafi þær breytingar ekki verið fyrirsjáanlegar þegar úrskurður var birtur eða að þær séu taldar til bóta og í samræmi við tilgang laganna. Ber að tilkynna slíkar breytingar með sama hætti og þegar kveðinn er upp úrskurður skv. 11. gr. og þá ákvörðun Skipulagsstofnunar er hægt að kæra til ráðherra eins og aðrar ákvarðanir stofnunarinnar. Í ljós hefur komið í örfáum tilvikum að betra hefði verið að standa öðruvísi að framkvæmd en úrskurður segir nákvæmlega fyrir um, þó án þess að efni standi til að kæra úrskurðinn. Hér kann, svo dæmi sé nefnt, að vera um örlitla tilhliðrun á vegi eða staðsetningu framkvæmda að ræða kannski sem nemur örfáum metrum. Ástæðulaust er að sporna gegn slíku mæli rök með því, svo ekki sé talað um sé það beinlínis til bóta fyrir umhverfið.

Í 7. mgr. 11. gr. er að finna það nýmæli að mat á umhverfisáhrifum gildi í tiltekinn tíma, þ.e. hafi framkvæmd ekki hafist innan tíu ára frá úrskurði geti Skipulagsstofnun ákvarðað hvort framkvæmdina skuli meta að nýju að þeim tíma liðnum. Forsendur fyrir mati kunna að breytast með tímanum og því er nauðsynlegt að hafa slíkt ákvæði í lögunum.

Í 13. gr. er fjallað um úrskurð ráðherra í þeim tilvikum þar sem kært er og hefur ráðherra fjórar vikur til að úrskurða eftir að kærufrestur rann út sé um að ræða kæru um hvort framkvæmd sem tilgreind er í 2. viðauka, sbr. 6. gr., sé matsskyld. Sé hins vegar um að ræða úrskurð um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 11. gr., skal umhvrh. kveða upp rökstuddan úrskurð innan átta vikna frá því að kærufrestur rann út og er sá frestur hinn sami og verið hefur. Tekið er fram að úrskurður ráðherra sé fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi sem þýðir að honum verður aðeins vísað til dómstóla.

Í 17. gr. er fjallað um eftirlit með framkvæmdum en nokkuð hefur verið á reiki eða gætt hefur óvissu um hverjum ber að fylgja því eftir að farið sé þar í samræmi við úrskurð um mat á umhverfisáhrifum. Ljóst er að leyfisveitendur hafa eftirlitshlutverki að gegna samkvæmt öðrum lögum og af þeim sökum er eðlilegt að þeir hafi eftirlit með því að framkvæmd sé í samræmi við úrskurð um mat á umhverfisáhrifum og að um það eftirlit fari samkvæmt hlutaðeigandi lögum. Í slíkum lögum, t.d. lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, er að finna ákvæði um þvingunarúrræði og um aðrar ráðstafanir sem eftirlitsaðilar, þ.e. heilbrigðisnefndir eða Hollustuvernd ríkisins eftir atvikum, geti gripið til. Á móti er lagt til að ákvæði 16. gr. gildandi laga um refsingu verði fellt niður enda fari um slíkt samkvæmt sérlögum svo sem lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og skipulags- og byggingarlög, svo dæmi séu tekin, enda eðlilegt að viðurlögum samkvæmt þeim lögum sé beitt í slíkum tilvikum.

Í ákv. til brb. I er lagt til að í stað þess ákv. til brb. í gildandi lögum, þar sem segir að framkvæmdir með leyfi útgefin fyrir 1. maí 1994 falli ekki undir lögin, komi að þær framkvæmdir með leyfi fyrir 1. maí 1994 og eru ekki hafnar fyrir árslok 2002 falli undir lögin frá og með þeim tíma. Samkvæmt gildandi ákvæðum er enginn frestur á því hvenær framkvæmd með leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 rennur út og verður að taka á því máli í eitt skipti fyrir öll. Þykir hæfilegt að miða frestinn við að honum ljúki í árslok 2002 þannig að nái frv. þetta fram að ganga á yfirstandandi þingi er hægt að hefja framkvæmdir með leyfi útgefnu fyrir 1. maí 1994 fyrir árslok 2002 án þess að þær falli undir lögin. Til þess að taka af allan vafa um það hver skuli úrskurða um hvort framkvæmdin hafi leyfi fyrir 1. maí 1994 er lagt til í ákv. til brb. I að það sé hlutverk umhvrh.

Í ákv. til brb. II er tekið fram vegna lagaskila að mati á umhverfisáhrifum sem hafið er við gildistöku laga þessara skuli lokið samkvæmt eldri lögum, nr. 63/1993.

Virðulegi forseti. Ég hef hér farið yfir helstu breytingar og nýmæli sem fólgin eru í frv. Af mörgu öðru er að taka og vísa ég til þess í nánari og ítarlegri almennum athugasemdum við einstakar greinar.

Ég vil hér á eftir gera grein fyrir þeim viðaukum sem fylgja með frv. og eru órjúfanlegur hluti þess en þeir eru þrír. Ég vil sérstaklega gera grein fyrir þeim atriðum sem víkja frá tilskipun 97/11/EB þar sem gerðar eru ríkari kröfur hér vegna íslenskra aðstæðna en þar, þ.e. í ESB, og einnig þar sem verið er að breyta frá 5. gr. gildandi laga þar sem fjallað er um umframframkvæmdir sem ávallt fara í mat.

Í 9. tölul. í 1. viðauka er lögð til sú breyting frá núgildandi lögum að í stað þess að allir flugvellir séu háðir mati á umhverfisáhrifum verði miðað við stærðarmörk í 97/11/EB, þ.e. 2.100 m langar meginflugbrautir, þannig að tryggt sé að stórir flugvellir sem hafa umtalsverð umhverfisáhrif fari í mat á umhverfisáhrifum. Í sjálfu sér þjónar engum tilgangi að skýlaus krafa sé gerð um að allir flugvellir fari í mat.

Í 10. tölul. er lögð til sú breyting frá núgildandi lögum að í stað þess að allir vegir séu háðir mati nái matsskyldan til stofnbrauta í þéttbýli, til nýlagningar vega utan þéttbýlis sem eru 10 km eða lengri og enduruppbyggingar vega utan þéttbýlis þar sem nýlagning samkvæmt áætlun nær yfir a.m.k. 10 km svæði. Með nýlagningu er átt við gerð nýs vegar utan vegasvæðis eldri vega. Með stofnbrautum í þéttbýli er m.a. átt við breikkun úr tveimur akreinum í fjórar og gerð mislægra gatnamóta. Með þessu er tekið fyrir óvissu sem ríkt hefur um matsskyldu vega, sérstaklega utan þéttbýlis sem samkvæmt gildandi lögum eru allir matsskyldir fortakslaust þó erfitt hafi verið að framfylgja því ákvæði.

Í 15. tölul. er lagt til að skolphreinsistöðvar með afkastagetu sem svarar 50.000 persónueiningum eða meira skuli ávallt matsskyldar en samkvæmt Evróputilskipun er miðað við 150.000 persónueiningar. Aðstæður hér á landi eru aðrar en í Evrópu svo sem óröskuð eða lítt röskuð strandsvæði og tiltölulega lítið þéttbýli.

Í 24. tölul. er lagt til að fiskimjöls- og lýsisverksmiðjur í þéttbýli með framleiðslugetu 1.000 tonn á sólarhring eða meiri verði háðar mati á umhverfisáhrifum. Engin sambærileg ákvæði eru í tilskipun EB og samkvæmt 5. gr. gildandi laga er engin krafa gerð um slíkt.

Vík ég því næst að 2. viðauka þar sem taldar eru upp þær framkvæmdir sem ber að tilkynna til Skipulagsstofnunar, sbr. nánar 6. gr. frv. Í hverju tilviki fyrir sig metur Skipulagsstofnun, á grundvelli viðmiðana, sbr. 3. viðauka, hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Eins og áður segir byggir 2. viðauki á II. viðauka í tilskipun 97/11/EB en þar eru eingöngu taldar upp framkvæmdir án þess að tilgreind séu stærðarmörk eða önnur viðmið, svo sem varðandi staðsetningu. Ef II. viðauki tilskipunar ESB væri tekinn upp óbreyttur í frv. hefði það í för með sér að tilkynna bæri allar tilgreindar framkvæmdir í viðaukanum til Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. óháð stærð eða staðsetningu. Í 2. viðauka frv. er hins vegar gerð tillaga um stærðarmörk og viðmiðanir þar sem það á við sem takmarka hvaða framkvæmdir ber að tilkynna til Skipulagsstofnunar skv. 6. gr., og er það í samræmi við tilskipun 97/11/EB um að heimlt sé að setja fram viðmiðanir.

Í tveimur tilvikum eru tilgreindar framkvæmdir í 2. viðauka sem ekki koma fram í II. viðauka tilskipunar 97/11/EB, annars vegar uppgræðsla lands og hins vegar endurvinnslustöðvar.

Eins og áður segir byggir 3. viðauki að stofni til á III. viðauka tilskipunar 97/11/EB, en þar koma fram þær viðmiðanir sem hafa ber í heiðri við mat á framkvæmdum sem skilgreindar eru í 2. viðauka. Þar kemur m.a. fram að athuga þarf sérstaklega hvers eðlis framkvæmdin er, hvernig staðsetningu er háttað og hvaða áhrifa sé að vænta.

Ég sé ekki ástæðu til að fara frekari orðum um viðaukana, þeir skýra sig að mestu sjálfir.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég fjalla um tvö atriði sem tengjast frv. og umræðunni um mat á umhverfisáhrifum. Annað er ákv. til brb. III og hitt eru þeir frestir sem gert er ráð fyrir í frv. vegna matsferils og kærumála með samanburði við fresti gildandi laga.

Samkvæmt áðurnefndu ákv. til brb. III skal umhvrh. skipa nefnd sem skal kanna hvort ástæða sé til að sameina og samræma ákvörðunarferli mats skv. 11.--13. gr. frv. við leyfisveitingar fyrir einstakar framkvæmdir og skal athugun þessari lokið innan tveggja ára frá gildistöku laganna. Samkvæmt íslenskum lögum er úrskurður um mat á umhverfisáhrifum sérstakt ferli og ótengt löggjöf um leyfisveitingar fyrir einstakar framkvæmdir svo sem lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, þar sem kveðið er á um starfsleyfi fyrir mengandi starfsemi. Við útgáfu leyfa er hins vegar skv. 13. gr. gildandi laga, sbr. 16. gr. frv., gert ráð fyrir að leyfisveitingar skuli taka tillit til úrskurðarins við útgáfu leyfis. Eftir því sem best er vitað er Ísland eina landið á EES-svæðinu sem skilur á milli mats á umhverfisáhrifum og útgáfu framkvæmda með þessum hætti. Á hinum Norðurlöndunum er um eitt ferli að ræða sem endar með útgáfu framkvæmdaleyfis eða starfsleyfis og er þar lögð áhersla á aðkomu almennings í upphafi málsmeðferðar. Leyfisveitingar eru með mismunandi hætti, allt frá því að vera í höndum þings, ríkisstjórnar eða einstakra stofnana eftir eðli og umfangi framkvæmdar. Æskilegt er að löggjöf á þessu sviði sé sem mest samræmd á EES-svæðinu með hliðsjón af samkeppnisstöðu.

Það er hins vegar ljóst að kanna þarf ýmsa þætti löggjafar áður en hægt er að taka afstöðu til samræmds ferils og kveða á um leyfisveitingar til framkvæmda. Gefa verður stjórnvöldum tíma til þessa verks og má ætla að til þess þurfi tvö ár.

Eitt af því sem sérstaklega hefur verið gagnrýnt varðandi framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er sá tími sem ferlið tekur en fari framkvæmd í frekara mat getur liðið ár eða vel það frá því að matsskýrslan var upphaflega lögð fram þar til endanlegur úrskurður liggur fyrir. Þetta ræðst að vísu töluvert af þeim tíma sem það tekur framkvæmdaraðilann að vinna frekara mat en miðað við stystu meðferð er um að ræða nærri ársferli fari framkvæmd í frekara mat og sé kært bæði á frummatsstigi og frekara matsstigi.

Í frv. er þessi frestur styttur verulega því ekki er um tvöfalt matsferli að ræða heldur eitt ferli. Þótt gert sé ráð fyrir að hægt sé að krefjast ítarlegra mats lengir það ferlið óverulega með hliðsjón af frestun. Til samanburðar við gildandi lög vil ég taka dæmi en þar er miðað við að matsskýrsla til framkvæmdaraðila liggi fyrir í báðum tilvikum. Samkvæmt frv. skal Skipulagsstofnun meta hvort matsskýrsla uppfylli 8. og 9. gr. innan tveggja vikna. Skýrslan skal auglýst og liggja frammi í sex vikur til athugasemda. Framkvæmdaraðili fær eina viku til að gera sínar athugasemdir við aðsendar athugasemdir og skipulagsstjóri til viðbótar þeirri viku þrjár vikur til úrskurðar. Úrskurður hans lægi því fyrir eftir tólf vikur frá því að matsskýslan var afhent. Samkvæmt gildandi lögum er þessi tími tíu vikur. Verði málið hins vegar kært til ráðherra er kærufrestur fjórar vikur frá birtingu og ráðherra hefur átta vikur til úrskurðar. Tæki þá allt ferlið 24--25 vikur því reikna má með að einhverjir dagar bætist við vegna þess að tíma tekur að birta úrskurði.

[14:30]

Krefjist Skipulagsstofnun ítarlegra mats fær stofnunin fjórar vikur til viðbótar til að úrskurða eftir að það mat liggur fyrir. Nú er ekki vitað hversu langan tíma ítarlegra mat tekur en ekki er óraunhæft að reikna með að það geti verið á bilinu ein til tólf vikur. Lengsta ferli gæti þá orðið fjórar vikur til viðbótar vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar og um tólf vikur vegna framkvæmdar ítarlegra mats eða samtals um 43 vikur á móti 58 vikum samkvæmt gildandi lögum, ef miðað er við sömu forsendur um tíma sem framkvæmd frekara mats tæki. Hér er því ljóst að það ferli sem lagt er til í frv. tekur styttri tíma ef allir kærufrestir eru nýttir. Fari mál hins vegar ekki í ítarlegra mat og verði ekki kært til ráðherra yrði ferlið samkvæmt frv. tólf vikur, en fari mál ekki í frekara mat og sé ekki kært til ráðherra samkvæmt gildandi lögum tekur það tíu vikur.

Með vísan til ofanritaðs er ferlið því aðeins lengra samkvæmt frv. en gildandi lögum ef hvorki kemur til ítarlegra mats né kæru til ráðherra en stytt talsvert ef til slíks kemur þar sem um eitt ferli er að ræða en ekki tvö.

Hæstv. forseti. Ég hef hér í nokkru máli gert grein fyrir helstu breytingum og nýmælum sem fólgin eru í frv. til laga um mat á umhverfisáhrifum sem ætlað er að koma í stað laga nr. 63/1993 með sama heiti. Hægt væri að hafa um frv. og málefnið sem slíkt miklu lengra mál en ég kýs að hætta hér. Ég legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhvn. og vænti þess að málið fái tiltölulega skjóta afgreiðslu þar, ekki síst vegna þess að nauðsyn ber til að lögin nái fram að ganga sem fyrst vegna skuldbindinga Íslands í samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að hér er um gríðarlega efnismikið mál að ræða sem kallar á ítarlega umfjöllun bæði í umhvn. og á þingi við umræður á síðari stigum.