Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 14:36:47 (4850)

2000-02-24 14:36:47# 125. lþ. 71.7 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[14:36]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fylgja eftir þessu andsvari talsmanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, og segja að mér finnst þetta fráleitt bráðabirgðaákvæði.

Ég minni á að í umræðunni í haust var þetta bráðabirgðaákvæði í gömlu lögunum ávallt borið fyrir sig með tilliti til Fljótsdalsvirkjunar þó að hvergi fyndist orð um hana í tengslum við setningu laganna á sínum tíma og margir héldu því fram að bráðabirgðaákvæðið hefði orðið til vegna Gilsfjarðarbrúarinnar.

Það er ljóst að ef ekki væri verið að setja bráðabirgðaákvæði í þessi lög þá féllu gamlar heimildir niður. Það er tillaga í umhvn. frá Samfylkingunni um nýtt bráðabirgðaákvæði sem tekur í raun og veru á þessu máli og gerir það ljóst að gamlar, jafnvel allt að því 50 ára heimildir gildi ekki lengur. Og mér kemur afskaplega mikið á óvart að umhvrh. ætli að hanga áfram á bráðabirgðaákvæði sem heldur opnum gömlum heimildum og auðvitað fær maður þá á tilfinninguna að verið sé að verja einhverjar sérstakar framkvæmdir eða tryggja að því sé haldið opnu að ákveðnar framkvæmdir geti farið af stað án umhverfismats.

Ég hefði talið, herra forseti, að umræðan hér í haust hefði leitt það í ljós fyrir alla að farsælast væri að Alþingi héldi þannig á málum að hér eftir væri það grundvallarregla að öll verkefni færu í mat á umhverfisáhrifum. Hæstv. ráðherra getur ekki vikist undan að tilgreina hvaða framkvæmdir það eru sem geta fallið undir þetta ákvæði og hvað nægi til þess að framkvæmdir teljist hafnar, hvort það sé að grafa smáholu á viðkomandi svæði.