Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 15:11:00 (4856)

2000-02-24 15:11:00# 125. lþ. 71.7 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[15:11]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er komið fram langþráð frv. til laga um mat á umhverfisáhrifum. Eins og kunnugt er hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs oftar en einu sinni kallað eftir þessu frv. hér í þingsal. Það var talað um það í fyrrakvöld þegar frv. var útbýtt á Alþingi að sjaldan hefði sést jafnmikill fögnuður í hópi stjórnarandstæðinga eins og þegar þessu frv. var dreift, stjfrv. til laga um mat á umhverfisáhrifum.

Eins og ég segi, herra forseti, var frv. útbýtt í fyrrakvöld, þ.e. seinni part þriðjudags, svo það hefur ekki gefist mikill tími til að rýna í frv. og verður að hafa það í huga við þær umræður sem hér fara fram. Það breytir hins vegar ekki því að hér eru margir punktar sem huga þarf að og margt sem þarf að segja þó ekki verði hægt að koma öllu að núna.

Ég verð að segja að hæstv. umhvrh. var talsverð vorkunn þegar hún mælti fyrir frv. Hæstv. ráðherra þurfti að koma mörgu að og ég hefði viljað að hún hefði haft meira svigrúm vegna þess að margt í ræðu hennar var afar athyglisvert þó erfitt sé að vitna í hana núna. Sú ræða verður skoðuð vel þegar hv. umhvn. tekur málið til umfjöllunar.

Ég er að hugsa um að hefja mál mitt, herra forseti, á því að ræða örlítið um markmið frv. Markmið laga um mat á umhverfisáhrifum hefur raunar verið deiluefni frá því að lögin sem nú eru í gildi voru sett. Á 118. löggjafarþingi árið 1994, strax ári eftir að lögin voru samþykkt, var lagt fram hér frv. til laga um breytingu á lögunum þar sem fyrst og fremst var miðað við að markmiðssetning laganna yrði skýrari.

Því frv. var vísað til nefndar og kom aldrei þaðan á 118. löggjafarþingi. Þetta frv. var endurflutt á 120. löggjafarþingi og hið sama gerðist. Frv. kvað fyrst of fremst á um að markmiðssetning laganna yrði gerð skýrari en var aftur látið sofna í nefnd.

Mig langar, herra forseti, að vitna í þetta frv. Ég sé nú ekki þingskjalsnúmerið en þetta er 58. mál á 120. löggjafarþingi. Þar er lagt til að 1. gr. laganna orðist svo, með leyfi forseta:

,,Markmið laga þessara er að koma í veg fyrir umhverfisspjöll.``

[15:15]

Ég verð að segja, herra forseti, að fyrsta setningin í þessu frv., sem aldrei náði fram að ganga, er mér afskaplega vel að skapi. Í tillögum nefndarinnar sem samdi frv. sem hér er til umræðu er það sama uppi á teningnum. Sú nefnd lagði til afskaplega skýra markmiðssetningu. Ég vil fá að vitna í það plagg sem sú stjórnskipaða nefnd skilaði í des. 1998. Þar leggur nefndin til að markmið og tilgangur laganna sé eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Markmið laga þessara er að koma í veg fyrir að umhverfinu verði spillt með því að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmdum ...`` o.s.frv. --- þarna er komið inn á texta sem við þekkjum. En þarna er líka lagt til að í fyrstu setningu markmiðasgreinar frv. verði skýrar kveðið á en gert er í núgildandi lögum og frv. því sem hér er til umræðu.

Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að það er reynt að klóra aðeins yfir í frv. sem nú er til umræðu, í l-lið 3. gr. en 3. gr. fjallar um skilgreiningar laganna. Í l-lið 3. gr. frv. er talað um veruleg spjöll á umhverfi og hann hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Umtalsverð umhverfisáhrif: Veruleg óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja með mótvægisaðgerðum.``

Herra forseti. Ég er alveg sátt við að hafa þessa setningu hér inni í skilgreiningargreininni. En mikið hefði ég orðið glaðari við að sjá þetta sem fyrstu setningu í markmiðsgreininni. Ég tel að þetta sé eitthvað sem við komum til með að ræða í hv. umhvn. og taka til rækilegrar skoðunar. Að mínu mati er markmið þessara laga ekkert annað en að koma í veg fyrir umhverfisspjöll og við eigum að segja það berum orðum í markmiðssetningu laganna.

Þessi lög eru sett samkvæmt tilskipun frá Evrópusambandinu og þó að tilskipunin feli það ekki beinlínis í sér að svona skuli orðanna hljóðan vera í þeirri lagasetningu sem fylgir eftir, þá er alveg ljóst í formála tilskipunarinnar að markmið allra þessara lagasetninga í Evrópu er að koma í veg fyrir umhverfisspjöll.

Mig langar til að vitna örlítið frekar, herra forseti, í 1. gr. en í b-lið hennar segir að markmið laganna sé ,,að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta til þess að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdar á umhverfið.``

Herra forseti. Ég get ekki annað en lýst furðu minni á þessari grein og spurt hæstv. umhvrh.: Hvað þýðir þetta? Ég get ekki betur séð en að hér sé verið, ja ég vil segja, gera lítið úr og jafnvel að móðga þá aðila sem hafa hingað til haft þessa umsýslu, þ.e. Skipulagsstofnun ríkisins. Ég sé ekki ástæðuna fyrir því að Skipulagsstofnun ríkisins eigi að hafa það í markmiðssetningu þessara laga að hún skuli hafa samvinnu við hagsmunaðila, þ.e. framkvæmdaraðila trúlega. Ég lýsi furðu minni á því, herra forseti, að þessi liður skuli vera í markmiðssetningunni og óska eftir frekari skýringum á tilurð hans í síðari ræðum hæstv. umhvrh.

Ég ætla ekki að segja meira, herra forseti, um 1. gr. að svo komnu máli en mig langar örlítið að fara nánar út í skilgreiningarnar sem koma fram í 3. gr. en þar segir í d-lið, með leyfi forseta:

,,Leyfi til framkvæmda: Endanlegt leyfi til framkvæmda og starfsemi sem þeim fylgir.``

Herra forseti. Mig langar til að vitna aftur í tillögu nefndarinnar sem samdi þetta frv. Það hefur ekki verið farið eftir tillögum hennar í einu og öllu, talsvert mikið er af breytingum í þessu frv. En mig langar til að vitna aftur í plaggið sem nefndin skilaði af sér. Þar segir um leyfi til framkvæmda, með leyfi forseta:

,,Endanlegt leyfi til framkvæmda og starfsemi sem þeim fylgir, en með því er átt við framkvæmda- eða byggingarleyfi samkvæmt skipulags- og byggingarlögum eða starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.``

Ég tel, herra forseti, að hér sé afskaplega þýðingarmikið atriði í tillögum nefndarinnar sem hefur síðan verið halaklippt í frv. Ég vil spyrja hæstv. umhvrh.: Hvers vegna þessi halaklipping? Þetta eru akkúrat hlutir sem hefur verið deilt um: Hvernig á að skilgreina þessi leyfi og hvað er endanlegt leyfi? Mér sýnist nefndin koma með afskaplega skynsamlega tillögu og vil því fá að heyra skýringar hæstv. umhvrh. á því hvers vegna ekki er farið lengra í að fylgja tillögu nefndarinnar.

Þá vil ég nefna, herra forseti, g-liðinn í 3. gr. þar sem fjallað er um matsskylda framkvæmd. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Framkvæmd sem háð er ákvæðum laga þessara ásamt þeirri starfsemi sem henni fylgir.``

Hérna er sömuleiðis, herra forseti, tillaga nefnarinnar vængstýfð en í tillögu hennar er orðalagið eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Framkvæmd sem háð er ákvæðum laga þessara ásamt þeirri starfsemi og framkvæmdum sem henni fylgja og eru nauðsynleg forsenda hennar.``

Herra forseti. Hér er miklu skýrari skilgreining, þ.e. að hér er talað um framkvæmdir sem eru nauðsynleg forsenda þessarar matsskyldu framkvæmdar. Ég sé ekki ástæðuna fyrir því að þetta orðalag skuli ekki hafa verið tekið beint upp í frv. og óska skýringar á því.

Svona í framhjáhlaupi líka, vegna þess að mér fannst, herra forseti, þegar ég var að lesa frv. að hér væri afskaplega fín skilgreining á því hvað umhverfi er, þ.e. þar er tíundað að það sé samheiti fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, vatn og loft og fleiri atriði eru talin upp. En ég sakna þess að sjá ekki orðið vistkerfi í frv. Við sem störfum í hv. umhvn. Alþingis höfum reynslu af því að hugtakið vistkerfi kemur æ oftar fyrir. Ég held að það væri alveg þess virði að koma því fyrir í þessari skilgreiningu á umhverfinu.

Herra forseti. Þá langar mig aðeins til þess að víkja að l-lið, sem er lokaliðurinn í þessari upptalningu í skilgreiningunum. Hann lýtur að umtalsverðum umhverfisáhrifum. Þar er enn ein vængstýfingin, halaklippingin. Í tillögum nefndarinnar sem gerði tillögur að frv. segir, með leyfi forseta, að umtalsverð umhverfisáhrif séu: ,,veruleg, óafturkræf, neikvæð umhverfisáhrif eða spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja með mótvægisaðgerðum,`` --- framhaldið er síðan klippt út úr frv. --- ,,og talin eru óásættanleg, t.d. vegna staðsetningar á viðkvæmu svæði eða vegna mengunarviðmiðana í lögum eða alþjóðlegum samningum.``

Þessi síðasta setning í þessari málsgrein fylgir ekki l-lið frv. Við þetta geri ég athugasemd, herra forseti, vegna þess að það er afskaplega mikilvægt að tilgreina í þessum skilgreiningum tengslin við alþjóðlega samninga. Það vil ég rökstyðja á þann hátt, herra forseti, að við erum að vinna með alþjóðlegan umhverfisrétt í þessum málaflokki. Í alþjóðlegum umhverfisrétti eru ákveðnar reglur, ég nefni mengunarbótaregluna og varúðarregluna, sem eru undirstaða alls. Ef við tengjum ekki lögin um mat á umhverfisáhrifum beint inn á þessar alþjóðlegu reglur sem skilgreina umhverfisréttinn þá finnst mér við sofa á verðinum. Ég sé enga ástæðu til þess. Ég legg því til að hér komi líka skýring og kem til með að beita mér fyrir því að alþjóðlegu samningarnir verði þarna áfram í l-lið frv.

Það er nú e.t.v. ekki ástæða, herra forseti, til að fara svona ítarlega í allt frv. núna en ég verð að segja að mér finnst eins og tillögum nefndarinnar hafi verið breytt á ansi mörgum stöðum. Ég vil eiginlega segja að neglurnar hafi verið klipptar á þessum tillögum. Mér þykir of oft mildað og gert óljóst eitthvað sem er hárbeitt og skarpt í tillögum nefndarinnar. Og ég held að þessi lagasetning þurfi að vera hárbeitt og skörp. Við höfum hingað til verið að deila um skilgreiningaratriði og lögin eins og við höfum haft þau hingað til, frá 1993, hafa ekki tekið nægilega vel á ákveðnum málum sem mér finnst vera í tillögum nefndarinnar. Ég sakna þess að ekki sé betur farið eftir því sem nefndin lagði til.

Eitt get ég ekki annað en gert að umræðuefni hér í þessari ræðu minni, herra forseti, en það er 8. gr. Ég vil spyrja hæstv. umhvrh.: Hvers konar ferli er það sem hér er lýst? Ég gríp nú niður í 8. gr. miðja, síðustu setningu 1. mgr., en þar kemur fram að framkvæmdaraðili skuli kynna tillögu að matsáætlun umsagnaraðilum og almenningi og hafa samráð við Skipulagsstofnun.

Herra forseti. Ég skil ekki hvað hér er á ferðinni. Fjallað er um matsáætlun í 8. gr. og hún er sem kunnugt er sú áætlun sem liggur til grundvallar framkvæmdinni. Sú áætlun er gerð samkvæmt lögum og það er framkvæmdaraðili sem gerir tillögu að slíkri matsáætlun til Skipulagsstofnunar. Síðan eiga þeir aðilar samvinnu um að útbúa þá áætlun. Þetta endar síðan í frummatsskýrslu sem er opin og kynnt almenningi samkvæmt auglýsingum.

En ég skil ekki hvaða hugmynd er að koma hér inn í ferlið þar sem framkvæmdaraðila er gert að kynna tillögu að matsáætlun umsagnaraðilum og almenningi og hafa samráð við Skipulagsstofnun. Ég verð að fá mjög greinargóða útskýringu á þessu því að hingað til hefur Skipulagsstofnun auglýst og kynnt frummatsskýrsluna og hún er opin til umsagnar öllum hlutaðeigandi, almenningi þar meðtöldum. Þessa setningu er ekki að finna í tillögum nefndarinnar og ég óska skýringa.

Að öðru leyti sýnist mér þessi grein dálítið undarleg og ég missi þráðinn í henni þar sem hún er afskaplega skýr í tillögum nefndarinnar. Mér virðist vera búið að snúa eitthvað upp á hana og kannski meira en að vængstýfa hana. Mér finnst búið að gera hana ansi ruglingslega og ég held að við þurfum frekari skýringar frá hæstv. ráðherra. Ég vil sérstaklega nefna niðurlagssetningu 8. gr. en hún er svohljóðandi, með leyfi herra forseta:

,,Ef sérstakar ástæður mæla með getur Skipulagsstofnun á síðari stigum farið fram á að framkvæmdaraðili leggi fram frekari gögn, enda rökstyðji stofnunin beiðnina sérstaklega.``

Ég ætla ekki að hafa frekari orð um þessa setningu en ég segi ekki annað en það, herra forseti, að mér finnst hún skrýtin.

Ég vil nefna 9. gr. sem fjallar um matsskýrsluna sjálfa. Þar er eitt lítið atriði tekið út úr tillögum nefndarinnar. Mér þykir það afskaplega miður og kem til með að beita mér fyrir að það verði tekið aftur inn. Þetta er aftarlega í greininni sem ég ætla að vitna til. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Ávallt skal gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman.``

Svona hljóðar greinin, herra forseti, í frv. en í tillögum nefndarinnar er grundvallaratriði sem tekið hefur verið út í frv. Ég les tillögu nefndarinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Ávallt skal gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra`` --- þetta er eins og í frv. en svo kemur það sem ég sakna --- ,,þar á meðal því að aðhafast ekkert.``

Ég spyr hæstv. umhvrh.: Hvers vegna er sú setning ekki hér inni, að það að aðhafast ekkert skuli líka heyra til þeirra möguleika sem til greina koma? Mér þykir það afskaplega mikilvægt, herra forseti, að því sé haldið til haga og það haft í greininni.

[15:30]

Ég sé að tími minn er að renna út en mig langar að koma að því bráðabirgðaákvæði sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir gerði að umtalsefni í ræðu sinni, sem er varðandi það að framkvæmdir sem hlotið hafa leyfi fyrir 1. maí 1994 séu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt frv. séu þær hafnar fyrir árslok 2002. Ég verð að segja, herra forseti, af því ég hef verið að vitna hér til tillagna nefndarinnar að þá er nefndin hér með tillögu að bráðabirgðaákvæði sem gerir ráð fyrir að sólarlagsákvæðið sé einungis til ársloka 1999, þ.e. afskaplega stutt sólarlagsákvæði. Þar með tel ég að nefndin sé að lýsa þeim vilja sínum að engar undanþágur verði. Ég spyr hæstv. umhvrh.: Hvers vegna fer hæstv. ráðherra ekki eftir þessari tillögu nefndarinnar, að það sé nánast ekkert sólarlag, þ.e. að tekin sé sú pólitíska afstaða og ákvörðun að undanþáguheimildir heyri hér með sögunni til? Það væri gaman að heyra skýringu hæstv. ráðherra á því, herra forseti.

Að öðru leyti kem ég betur inn á ákveðna þætti í síðari ræðu minni, en tel mig hafa komið fram þeim meginatriðum sem ég óska eftir að hæstv. umhvrh. svari.