Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 16:07:02 (4859)

2000-02-24 16:07:02# 125. lþ. 71.7 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, KF
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[16:07]

Katrín Fjeldsted:

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir frv. til laga um mat á umhverfisáhrifum og er það endurskoðun á lögum frá 1993. Ég vil eins og margir aðrir þingmenn fagna framlagningu þess, en samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins sem frv. byggir að mestu leyti á hefði þetta frv. þurft að koma fram fyrir þó nokkru síðan og vera orðið að lögum. En ég fagna því samt að það sé komið fram.

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að ræða í ítarlegu máli um innihald frv. því að frv. fer til hæstv. umhvn. og verður fjallað um það þar. Þar sitja vanir menn eins og vitað er. Mikið hefur verið fjallað um efni núgildandi laga og ýmislegt tengt þeim. Bent hefur verið á ýmsa ágalla sem í þeim eru sem væntanlega er hægt að mæta með þessu frv. Miklar upplýsingar liggja fyrir hjá umhvn. Af þeim ástæðum ætti því málið kannski ekki að taka svo langan tíma. En samt skiptir miklu að vandlega sé að því unnið.

Ég hef lesið frv. yfir og greinargerðina sem því fylgir og mig langar til að drepa á nokkur atriði. Nefndin sem samdi frv., en hennar er getið á bls. 14, skilaði því frá sér fyrir rúmu ári. Formaður hennar var Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í umhvrn. Tveir þingmenn áttu þar sæti, Ísólfur Gylfi Pálmason og Tómas Ingi Olrich. Með þeim sátu í nefndinni Ásdís Hlökk Theodórsdóttur, Hjörleifur Kvaran, Gísli Már Gíslason og síðan er tiltekið hverjir starfsmenn nefndarinnar voru.

Ég á eftir að fá samanburð á því hvar vikið sé frá tillögum nefndarinnar í frv. og sé vikið frá tillögum nefndarinnar að fá skýringu á því. Ég er ekki að kalla eftir þeim svörum hér en þetta er auðvitað eitt af því sem hv. umhvn. þarf að kynna sér og taka afstöðu til.

Það er ljóst að með frv. er verið að reyna að einfalda þetta ferli sem mörgum hefur þótt heldur flókið, sérstaklega hvað varðar aðkomu almennings og hve langan tíma það hefur tekið að fá fram mat á umhverfisáhrifum. Með frv. er gert ráð fyrir því að séu allir kærufrestir nýttir þá styttist tíminn úr 58 vikum í 43 vikur. Það kom fram í máli ráðherra og er það vel.

Það skiptir máli að almenningur komi sem fyrst að vandasömum og viðkvæmum málum sem lúta að umhverfinu því umhverfið kemur öllum við. Í haust og fram undir jól tókumst við á um málefni Fljótsdalsvirkjunar. Þar kom almenningur allt of seint að málinu. Það má segja að kannski hafi fólk átt að vakna fyrr til vitundar, en það er nú svo að umfjöllun um mál í fjölmiðlum stuðlar að því að fólk átti sig á því sem Alþingi er að gera og eins og gerðist í því máli þá vildi almenningur koma að því svo um munaði.

Mér finnst skipta mjög miklu máli við meðferð þessa frv. og við endurnýjun á lögunum um mat á umhverfisáhrifum að ný lög verði gegnsæ og að reynt sé eins og hægt er að forðast lagaklæki og undanbrögð. Það þarf nefnilega að setja lög um mat á umhverfisáhrifum sem sátt getur verið um. Mér finnst ekki boðlegt almenningi í landinu að háðar verði fleiri styrjaldir af því tagi sem hér var fyrir áramótin.

Til þess að reyna að koma til móts við þetta sér maður m.a. að sett er sólarlagsákvæði í frv., þ.e. til þess að lagaheimildir um virkjanir verði ekki endalaust undanþegnar mati á umhverfisáhrifum eins og er í núgildandi lögum ef lagaóvissa leyfir það eða ef lagaskýringar leiða það í ljós, sem reyndar hefur ekki enn gerst.

Árið 1999 var sett á laggirnar nefnd um rammaáætlun um virkjanir og forgangsröð. Mér finnst skipta allmiklu máli í starfi þeirrar nefndar að hún fái að fjalla um þær virkjanir sem lagaheimild hafa frá Alþingi og mér finnst æskilegt að allar virkjanir sem hafa slíkar lagaheimildir verði látnar sæta mati á umhverfisáhrifum. En með því að sólarlagsákvæðið nær til ársloka 2002 þá er næstum því um þrjú ár til viðbótar að ræða sem mér finnst ansi langur tími. Ég óttast að það geti orðið til þess að menn fari að flýta sér að ráðast í þær framkvæmdir til þess að þurfa ekki að sæta þessu mati. Þetta finnst mér skipta miklu máli. Mér finnst tæp þrjú ár verulega rausnarlegur tími og þyrfti að endurskoðast.

Eitt er það sem ég veit ekki og mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra að því ef hann heyrir mál mitt, herra forseti, sem ég geri ráð fyrir.

(Forseti (GuðjG): Hæstv. ráðherra er í húsinu og kemur nú í salinn.)

Takk fyrir. Mig langar til að spyrja ráðherrann hvernig sólarlagsákvæðið rími við tilskipun ESB, hvort eitthvað sé fjallað um slík sólarlagsákvæði þar og hvort þetta falli saman við það.

[16:15]

Í 5. gr. frv. er ólíkt því sem nú er í lögum ekki talið upp hvaða framkvæmdir sé ávallt skylt að fara með í mat á umhverfisáhrifum, það er flutt í svokallaðan 1. viðauka með frv. og þá er einnig sett í viðauka sem er nefndur 2. viðauki hvað meta skal í hverju tilviki. Þetta eru miklar upptalningar sem í núgildandi lögum voru í lagatextanum. Mig langar líka að spyrja ráðherra hvaða lagatæknileg eða efnisleg áhrif þetta hafi. Gæti það þýtt að hægt væri að breyta viðauka 1 og 2 að mati ráðuneytisins, án þess það komi í rauninni til umfjöllunar hjá Alþingi? Ég veit reyndar að rökstyðja þarf sérhverja slíka breytingu fyrir ESB, það kemur fram á bls. 2 og 18 í frv. En mig langar til að heyra hvað hæstv. ráðherra hefur um þetta að segja, þ.e. hvaða lagatæknileg eða efnisleg áhrif það hefur að færa upptalninguna í viðauka 1 og 2 í stað þess að hafa hana í lagatextanum.

Mörgum finnst æskilegt að stjórnvöld hafi sem minnst um eigin framkvæmdir að segja, þ.e. að samvinna stjórnvalda og hagsmunaaðila sé samkvæmt leikreglum frá Alþingi, og þá komum við inn á að framkvæmdarvaldið skarist sem minnst við löggjafarvaldið, framkvæmdarvaldið þurfi að lúta vilja Alþingis eins og aðrir. Það er það sem ég túlka að almenningur í landinu hafi verið að segja með því að vilja mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar. Þar hafi menn í sjálfu sér ekki tekið afstöðu með eða á móti virkjun og ekki heldur með eða móti álveri við Reyðarfjörð, þó að sumir hafi kannski gert það, en fyrst og fremst sé krafan um að stjórnvöld fari að leikreglum sem öðrum eru settar. Kannski kemur þetta inn á áhuga núv. umhvrh. sem vildi á sínum tíma og lagði fram tillögu um að ráðherrar sætu ekki jafnframt á þingi, hún er í góðri aðstöðu núna til að beita sér fyrir breytingum á því.

Í tilskipun Evrópusambandsins er byggt á nokkuð mörgum reglum. Þetta er byggt á Ríó-ráðstefnunni frá 1992 og þar kemur varúðarreglan inn og mengunarbótaregla, regla um verndarsjónarmið, regla um að mengun sé upprætt við upptök sín, og af því að umhverfisvernd snertir alla; að hagsmunir komandi kynslóðar séu hafðir að leiðarljósi. Ég efast ekki um að það sé jafnmikið keppikefli fyrir umhvrh. eins og fyrir þá sem hér stendur.

Spurningar mínar til ráðherrans lúta sem sagt að lagatæknilegum og efnislegum áhrifum þess að flytja atriði sem áður voru í lögunum í viðauka. Í öðru lagi hvernig það samræmist kröfum í tilskipun ESB að hafa sólarlagsákvæðið á þann hátt sem þarna er gert. Og í lokin hvort ráðherra sé ekki sammála mér um það að rétt sé að fara ekki í fleiri styrjaldir við almenning í landinu.