Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 16:39:06 (4861)

2000-02-24 16:39:06# 125. lþ. 71.7 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[16:39]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Margt athyglisvert hefur komið fram í þeim ræðum sem hafa verið fluttar hér í dag við umfjöllun um þetta frv. til nýrra laga um mat á umhverfisáhrifum. Þingmenn hafa almennt lýst ánægju með það að nú skuli frv. loksins komið fram. Þó hafa menn ekki getað látið hjá líða að átelja hæstv. ráðherra fyrir að leggja frv. ekki fram miklu fyrr. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra, herra forseti, að hún telur að ekki hafi þurft að leggja það fram fyrr þótt samþykkja hefði átt það í ágúst sl. frá Alþingi Íslendinga. Þar er ráðherrann reyndar ekki á sama máli og aðrir sem hafa komið að þessu máli og haft aðra skoðun þar á. Þar vil ég nefna nefndina sem skilaði upphaflega tillögum til ráðherra um þetta frv. í desember 1998, en í gögnum þeirrar nefndar kemur glögglega fram að hún telur að Alþingi Íslendinga hefði átt að vera búið að samþykkja þessi lög í síðasta lagi 14. mars 1999. Ég vil bara ítreka það, herra forseti, að hér erum við talsvert langt á eftir áætlun með að sinna tilskipun Evrópusambandsins. Ég vil minna á þetta að gefnu tilefni, herra forseti, vegna þess að í grg. með því frv. sem hér er til umfjöllunar, er fjallað um þær tvær tilskipanir sem þessi lög eiga að byggja á og ég verð að segja, herra forseti, að umfjöllunin í greinargerðinni er ákaflega loðin og tvíræð og mjög erfitt að lesa í hana. Mér finnst það ekki maklegt þegar svo umdeilt mál er í gangi að greinargerð með slíku frv. skuli vera svona loðin að því er lýtur að grundvallaratriðum frv. Við erum að byggja þetta frv. á tveimur áríðandi tilskipunum Evrópusambandins. Sú nýrri er nr. 97/11/EBE og um hana stendur ágreiningurinn. Ég nefni það, herra forseti, að nýlega var dómtekið í Héraðsdómi Reykjavíkur mál sem höfðað var gegn hæstv. umhvrh. og hæstv. iðnrh. á grundvelli túlkana þessara tilskipana. Í stefnu þeirri sem fylgir því máli kemur ljóslega fram að stefnendur vefengja bráðabirgðaákvæði II í núgildandi lögum og telja það alls ekki eiga að geta verið í gildi út frá tilskipununum sem um ræðir. Mig langar, herra forseti, að fá að vitna í stefnu þá sem ég geri hér að umfjöllunarefni í þessu sambandi því í henni kemur fram atriði sem ég tel að geti styrkt enn frekar þetta mál mitt. Í stefnunni segir, með leyfi forseta:

,,Enn fremur halda stefnendur því fram að bráðabirgðaákvæði II við lög nr. 63/1993 skuli víkja fyrir skuldbindingum samkvæmt EES-samningnum sem lögleiddur hefur verið þar eð þetta ákvæði stríði gegn tilskipun ráðsins nr. 85/337/EBE um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið. Engin undanþáguheimild er í tilskipuninni sem heimilar að vikið sé frá kröfunni um mat á umhverfisáhrifum eftir að tilskipunin tók gildi með lögfestingu EES-samningsins. Ekki var sérstök grein gerð fyrir undanþágu\-ákvæðinu í þeim tilkynningum sem stjórnvöld sendu frá sér til Eftirlitsstofnunar EFTA, sbr. dómskjal 39.``

Af þessu sést að lögfróðir menn sem kafað hafa ofan í þetta mál af mikilli natni telja engan fót vera fyrir undanþáguákvæðunum í tilskipunum Evrópusambandsins. Þetta vil ég að hv. þm. hafi í huga þegar við fjöllum um bráðabirgðaákvæðin, að það er möguleiki á því að þau standist ekki tilskipanir.

Annað finnst mér loðið, herra forseti, í þessu frv. en það er hlutverk og verkaskipting milli framkvæmdaraðila og Skipulagsstofnunar. Mér finnst mörkin á milli þessara aðila og hlutverka þeirra vera gerð óljós og loðin, sérstaklega með tilliti til tillagna nefndarinnar sem stóð að baki samningu frv. Í tillögunum sem koma frá nefndinni eru þessi mörk að mínu mati ekki óljós og bara ansi skýr, verð ég að segja. Mig langar í því sambandi að nefna ákveðin dæmi úr frv. og tek ég þá upp þráðinn þar sem frá var horfið í raun og veru í fyrri ræðu minni og drep fyrst á 6. gr. frv. sem fjallar um framkvæmdir sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum.

[16:45]

En í 6. gr. segir: ,,Áður skal stofnunin leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni. Skipulagsstofnun skal gera hlutaðeigandi grein fyrir niðurstöðu sinni.`` Ég undirstrika hér orðið hlutaðeigandi, því að í tillögum nefndarinnar segir skýrt og skorinort að niðurstöðu Skipulagsstofnunar skuli kynna opinberlega.

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna sú ákvörðun var tekin að breyta þessu orðalagi frá tillögum nefndarinnar og yfir í það sem getur að líta í frv. Í framhaldi af því má nefna niðurlagssetningu greinarinnar. Þar segir í frv., með leyfi forseta: ,,Kærufrestur er fjórar vikur frá því að niðurstaða stofnunarinnar er kynnt hlutaðeigandi.`` En í tillögum nefndarinnar stendur: ,,Kærufrestur er fjórar vikur frá því niðurstaða stofnunarinnar er kynnt opinberlega.`` Hér er verið að veikja aðkomu almennings að málum, herra forseti, og það er í andstöðu við tilskipun Evrópusambandsins. Það er í andstöðu við anda þessara laga og það er í andstöðu við Árósasamninginn og í andstöðu við fleiri meginreglur sem við erum að vinna eftir, herra forseti. Hér er því verið að veikja aðkomu almennings að málum og ég held að hv. þm. eigi skilið að fá skýringu hæstv. umhvrh. á því hvers vegna er ekki farið að tillögum nefndarinnar hér.

Ég hafði í fyrri ræðu minni, herra forseti, gert athugasemd við 8. gr. Ég hleyp því yfir hana en vil ítreka það sem ég sagði um 9. gr. í fyrri ræðu minni. Ég gerði athugasemd við að ekki skuli vera innifalinn í frv. sá möguleiki að aðhafast ekkert. Í tillögum nefndarinnar sem samdi frv. er gert ráð fyrir að sá möguleiki verði skoðaður, hann borinn saman við aðra og þannig talinn fullgildur valkostur. Ástæður fyrir þeim kosti sem framkvæmdaraðili velur þyrfti sem sagt að bera saman þann möguleika að gera ekki neitt. Ég tel þetta grundvallaratriði og afskaplega mikilvægt að þetta sé með í lögunum, herra forseti.

Varðandi 10. gr. og þá vík ég aftur inn á sporið sem ég var á áðan, um hve skilin á milli framkvæmdaraðila og Skipulagsstofnunar eru orðin óljós. Í frv. segir, með leyfi forseta:

,,Þegar framkvæmdaraðili hefur sent Skipulagsstofnun matsskýrslu skal stofnunin innan tveggja vikna meta hvort skýrslan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í 9. gr. og sé í samræmi við matsáætlun skv. 8. gr.``

Hér fellur síðan brott afskaplega mikilvæg setning sem er í tillögum nefndarinnar, en í tillögum nefndarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Ef fram kemur við athugun að upplýsingar skorti um einstök atriði sem kunna að hafa áhrif á niðurstöðu máls getur Skipulagsstofnun krafist þess að framkvæmdaraðili afli þeirra áður en stofnunin úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum.``

Hér tel ég um afskaplega mikilvægan þátt að ræða, herra forseti, í starfi Skipulagsstofnunar og grundvallaratriði að setning af þessu tagi sé inni í lögunum en ekki strikuð út. Mér finnst undarlegt að svo skuli gert og að hún skuli ekki vera inni í frumvarpstextanum. Síðan er annað sem mér finnst undarlegt í 10. gr. sem líka virðist ætlað til að veikja hlutdeild Skipulagsstofnunar í þessum málum. Þar er ég komin að 3. mgr. 10. gr. frv. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Framkvæmdaraðili skal kynna framkvæmd og matsskýrslu í samráði við Skipulagsstofnun ...`` en hér er um grundvallaratriði að ræða. Þetta er grundvallarbreyting, herra forseti, frá því sem nú er og frá því sem gert er ráð fyrir í tillögum nefndarinnar. Í tillögum nefndarinnar er lagt til að svipaður háttur sé hafður á og við höfum í dag, þ.e. að Skipulagsstofnun og framkvæmdaraðili skuli standa að sameiginlegri kynningu framkvæmdar. Herra forseti. Ég undrast þessa áherslubreytingu og tel að við þurfum að fá skýringu á henni. Sömuleiðis vil ég fá skýringu frá hæstv. ráðherra á tíu ára svigrúminu sem gefið er frá úrskurði Skipulagsstofnunar varðandi framkvæmdir sem ekki hefjast. Þetta voru einungis fimm ár í tillögum nefndarinnar. Ég tel það mun réttara en að auka þann frest í tíu ár.