Fákeppni í sölu matvöru og stöðugleiki í efnahagsmálum

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 15:10:48 (4893)

2000-03-06 15:10:48# 125. lþ. 72.2 fundur 352#B fákeppni í sölu matvöru og stöðugleiki í efnahagsmálum# (óundirbúin fsp.), JB
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[15:10]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. forsrh. sem fer með yfirstjórn efnahagsmála í landinu. Aukin verðbólga á síðustu missirum hefur valdið mörgum áhyggjum og það er hvort tveggja að framfærslukostnaður heimila í landinu hefur hækkað en einnig er stöðugleika í hagkerfinu stefnt í hættu. Gegn þessum verðhækkunum hefur verið beint hefðbundnum hagstjórnartækjum, svo sem vaxtahækkunum, en það virðist ekki hafa borið mikinn árangur enn sem komið er. Hins vegar vekur ugg að drjúgur hluti af þessari verðbólgu gæti stafað af verðsamráði eða fákeppni í matvöruverslun hérlendis. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum og Þjóðhagsstofnum hækkaði smásöluverð á innfluttum matar- og drykkjarvörum um 7,8% á síðastliðnu ári og á sama tíma lækkaði meðalverð á innfluttum matar- og drykkjarvörum til dreifingaraðila hérlendis um 2%, þ.e. á tímabilinu janúar til nóvember, miðað við sama tíma frá árinu áður. Forsrh. hefur sjálfur lýst opinberlega áhyggjum af þeirri stöðu sem komin er upp. Mun hann sem æðsti yfirmaður efnahagsmála beita sér fyrir því að fram fari rannsókn á því hvort stórmarkaðsrisar hérlendis hafi misbeitt markaðsaðstöðu sinni og hvort það geti verið ein sök á þessum óeðlilegu og miklu verðhækkunum? Sé ekki svo, hverjar séu þá ástæðurnar fyrir þessum miklu verðhækkunum? Enn fremur, herra forseti, leyfi ég mér að beina því til hæstv. forsrh. hvort hann muni beita sér fyrir aðgerðum til að hindra þá einokun sem komin er upp í matvöruverslun hérlendis og efla á ný eðlilega samkeppni í vöruverði og gæðum og vöru og þjónustu matvöruverslana.