Fákeppni í sölu matvöru og stöðugleiki í efnahagsmálum

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 15:14:27 (4895)

2000-03-06 15:14:27# 125. lþ. 72.2 fundur 352#B fákeppni í sölu matvöru og stöðugleiki í efnahagsmálum# (óundirbúin fsp.), JB
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[15:14]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að hann skuli taka undir þetta eins og hann hefur reyndar gert áður opinberlega. Ég tel málið vera stóralvarlegt.

Eins og hæstv. forsrh. sagði sjálfur áðan hefur gengi íslensku krónunnar hækkað, gengi evrunnar, sem er aðalviðskiptamynt okkar, hefur lækkað verulega, kannski milli 10 og 20% á síðasta ári. Það hefði átt að leiða til lækkunar vöruverðs en svo varð ekki. Ég tel því að hér sé þegar í stað þörf beinna aðgerða. Þetta má ekki viðgangast svona.

Ef fákeppni mundi valda erlendis slíku verðsamráði og verðhækkunum, sem við stöndum frammi fyrir, yrði gripið til rannsókna og alvarlegra aðgerða. Neytendur eru berskjaldaðir í matvöruverslun hérlendis vegna fákeppni. Öll matvöruverslun landsins er komin á eina, tvær eða í hæsta lagi þrjár hendur.