Jöfnun námskostnaðar

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 15:15:49 (4896)

2000-03-06 15:15:49# 125. lþ. 72.2 fundur 353#B jöfnun námskostnaðar# (óundirbúin fsp.), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Nú í kjölfar þess að dreifbýlisstyrkjum hefur verið úthlutað hefur eins og stundum áður hafist umræða um réttlæti laganna. Mest er gagnrýnin á að skilyrði styrkveitingar sé að ekki sé unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili eða öðrum dvalarstað sem námsstyrkjanefnd metur jafngildan.

Í skýrslu menntmrh. til Alþingis um nýja skólastefnu frá 122. þingi segir að með nýrri aðalnámskrá eigi að leitast við að tryggja að hver einstaklingur geti fundið nám við hæfi innan framhaldsskólans. Námið á að vera samfelldara, markvissara og sérhæfðara en áður.

En í þessari sömu skýrslu segir einnig, með leyfi forseta, og nú vitna ég beint í skýrsluna:

,,Nemendur geta í auknum mæli valið á milli framhaldsskóla en verða ekki lengur eins bundnir við að fara í þann skóla sem næst þeim er. Litið verður á landið sem einn námsmarkað ...``

Framhaldsskólar bjóða afar mismunandi þjónustu. Ungt fólk vill geta valið og farið í skóla þar sem veitt er þjónusta við þeirra hæfi og annars konar námstilhögun en í svokölluðum heimaskóla þó teygja megi og túlka yfir í sambærilegt nám. Og það telur sig líka hafa fengið þau skilaboð frá m.a. hæstv. menntmrh. að slíkt eigi að vera hægt en kemur þá sannarlega á óvart vistarbandið nýja sem felst í því að ef annar skóli en heimaskóli er valinn þá fæst enginn dreifbýlisstyrkur.

Ég vil því spyrja hæstv. menntmrh. hvort fyrirhuguð sé endurskoðun á lögunum um jöfnun námskostnaðar til að samræma þau yfirlýsingum eins og þeim að nemendur geti í auknum mæli valið á milli framhaldsskóla en verði ekki lengur eins bundnir við það að fara í þann skóla sem næstur þeim er og að litið verði á landið sem einn námsmarkað.