Úthlutun listamannalauna

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 15:19:22 (4899)

2000-03-06 15:19:22# 125. lþ. 72.2 fundur 354#B úthlutun listamannalauna# (óundirbúin fsp.), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[15:19]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Fyrr á þessu þingi fékk ég skrifleg svör frá hæstv. menntmrh. við nokkrum spurningum mínum um úthlutun listamannalauna og ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þau ágætu svör. Í þeim svörum er margt sem vekur athygli. Þar eru m.a. taldir upp þeir listamenn sem listamannalauna njóta og jafnframt þeir sem var hafnað.

Svörin vekja margar spurningar. Ég vil þó taka það fram hér í upphafi að mér er kunnugt um að hvorki menntmrh. né menntmrn. hafa nokkur afskipti af þessari úthlutun heldur þar til skipaðar nefndir. Hins vegar er um mikið fé að ræða og ég efast heldur ekki um að úthlutunarnefndir útdeila af mikilli samviskusemi og bestu þekkingu og vitund.

En það er líka rétt, herra forseti, að hafa í huga að hér er um mikið framsal af hálfu Alþingis að ræða. Það er vandmeðfarið mál hverjir eiga að fá listamannalaun og hverjir ekki. Hvenær er listamaður verður launa sinna? Hvaða mælistika er notuð? Hefur hv. Alþingi sent einhver slík boð frá sér? Er það vinskapur? Hvað gildir um menntun eða listformið sjálft? Hversu lengi á listamaður að vera á launum? Á að afkastatengja það með einhverju móti? Hvað um búsetu? Hvað með möguleika á endurnýjun, þ.e. fyrir unga listamenn sem eru að hasla sér völl í listgrein sinni? Þannig má áfram telja.

Þetta fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt og mun ugglaust alltaf verða gagnrýnt meðan fleiri vilja en fá. En ég vek athygli á því, herra forseti, að hér er um mikið framsal Alþingis að ræða og það er því spurning mín til hæstv. menntmrh. hvort hann telji æskilegt eða hann muni beita sér fyrir því að hv. Alþingi sendi a.m.k einhverja mælistiku frá sér til þeirra sem annast úthlutun.