Starfsemi Barnahúss

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 15:36:11 (4909)

2000-03-06 15:36:11# 125. lþ. 72.2 fundur 356#B starfsemi Barnahúss# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[15:36]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessa fyrirspurn. Það er einmitt ágætt að fá hana hér. Þetta mál kom upp í utandagskrárumræðu eins og hv. þingmenn muna rétt fyrir jól og þá var það undirstrikað að Barnahúss heyrir undir hæstv. félmrh. en ekki dómsmrh.

Það var farið nokkuð yfir gang þessa máls og m.a. var rætt um lög sem sett voru á síðasta þingi sem horfðu til þess að bæta réttarstöðu brotaþola í heild sinni. Það var einmitt einnig bent á það í þessari umræðu að með yfirheyrsluaðstöðu við Héraðsdóm Reykjavíkur, sem komið hefur verið upp í framhaldi af þeim lagabreytingum, væru menn með mun víðtækari markmið í huga en einvörðungu yfirheyrslur yfir börnum og ungmennum eins og hv. þm. er kunnugt. Það er því alveg ljóst að þetta mál í heild sinni snýr að fleiri atriðum en aðeins þeim sem snerta starfsemi Barnahúss. Ég held hins vegar að sú starfsemi sem þar hefur farið fram og snýr að barnaverndarstarfsemi almennt hafi verið mjög gagnleg og þörf og hef aldrei gefið neitt annað í skyn. Ég tel að með þeirri yfirheyrsluaðstöðu sem komið hefur verið upp í Héraðsdómi Reykjavíkur hafi þeim úrræðum fjölgað sem börnum og ungmennum þessa lands stendur til boða þannig að ég tel að það sé fagnaðarefni.

Það er rétt að framkvæmdastjóri Barnaheilla kom ásamt fleiri aðilum á minn fund í síðustu viku með áskorun um þetta mál. Ég skýrði frá því að ég hefði leitað eftir því að fá upplýsingar um hvernig þetta mál stæði. Það eru viðræður í gangi milli Barnaverndarstofu og dómstólaráðs þannig að ég vænti þess að verið sé að setja niður einhverjar verklagsreglur sem menn muni vinna eftir. Jafnframt hef ég haft upplýsingar um að verið sé að vinna að því að koma upp sérstöku teymi dómara sem muni sérhæfa sig í meðferð þessara mála sem ég tel vera mjög gott mál. Ég hygg að við getum verið sammála um að (Forseti hringir.) stefna beri að bættri réttarstöðu barna í þessu sambandi eins og hægt er.