Starfsemi Barnahúss

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 15:38:38 (4910)

2000-03-06 15:38:38# 125. lþ. 72.2 fundur 356#B starfsemi Barnahúss# (óundirbúin fsp.), BH
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[15:38]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að Barnahús heyrir undir hæstv. félmrh. En það var breyting á lögum um meðferð opinberra mála sem vissulega olli því að Barnahúsið hefur ekki verið notað eins og margir bundu vonir við og það er kannski þess vegna sem ég beini þessari fyrirspurn minni til hæstv. dómsmrh. sem vissulega getur haft áhrif á þá lagabreytingu ef ástæða er til því að hún hefur vissulega leitt af sér að Barnahúsið hefur ekki verið notað sem skyldi og sú þekking sem þar hefur verið upp safnað.

Ég vil hins vegar þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin og ég fagna því að í gangi séu viðræður til þess að finna einhvern flöt á þessu máli því að ég held að það mikilvægasta sé að sú uppsöfnun þekkingar og þess búnaðar sem í Barnahúsinu hefur átt sér stað, nýtist við meðferð þessara mála því að þetta er vissulega sérþekking sem er mjög mikilvægt að nýtist til þess að vernda börn gegn þeim óæskilegu áhrifum sem málsmeðferð í slíkum viðkvæmum málum getur valdið.