Starfsemi Barnahúss

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 15:41:08 (4912)

2000-03-06 15:41:08# 125. lþ. 72.2 fundur 356#B starfsemi Barnahúss# (óundirbúin fsp.), BH
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[15:41]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég er ekki að gera lítið úr því að þær lagabreytingar sem farið var af stað með hafi verið hugsaðar til bóta og til þess að bæta málsmeðferð. Ég er ekki heldur að gera lítið úr því að það hafa verið skiptar skoðanir einkum á milli umboðsmanns barna og svo margra annarra aðila sem starfa að málefnum barna um þetta mál og á meðal þeirra 33 stofnana og samtaka sem undir þessa áskorun skrifa eru margir sem starfa að málefnum barna.

Vissulega er það líka rétt að fordæmi eru ekki mörg en hins vegar hefur Barnahúsið og starfsemi þess vakið gríðarlega athygli víða erlendis og verið talin til fyrirmyndar þannig að ég held að við megum ekki láta það aftra okkur þó að ekki séu mörg fordæmi fyrir slíku húsi. Aðalatriðið er að vernda börnin fyrir slæmum áhrifum þessarar málsmeðferðar sem hún vissulega getur haft í för með sér og það er það sem við þurfum að tryggja, herra forseti, með öllum ráðum.