Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 16:14:23 (4916)

2000-03-06 16:14:23# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[16:14]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það vekur athygli allra sem lesa þetta frv., grg. með því og hafa hlýtt á hv. þm. að hún ræðir ekkert um tengsl einstakra stjórnmálaflokka við verkalýðshreyfinguna. Þó sat hv. þm. lengi hér á Alþingi fyrir Alþfl. sem á sínum tíma eignaðist ýmsar fasteignir í Reykjavík, sem ýmsir töldu í raun eign verkalýðshreyfingarinnar, og fór með sem sínar. Bein fjárhagsleg tengsl voru því að sjálfsögðu milli Alþfl. og Alþýðusambandsins á sínum tíma og það var í raun og veru sama fyrirbrigðið og kostaði mikil átök að slíta þau tengsl.

Eins hefur það endurtekið sig oft síðan að sumir stjórnmálaflokkar telja sig eiga meiri rétt til þeirra fjármuna sem verkalýðshreyfingin ræður yfir en aðrir, eins og heyrðist á ræðu hv. þm. Ef maður lítur á 10. gr. frv. þá segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

,,Stjórnmálasamtökum er heimilt að taka við fjárframlagi eða ígildi þess frá einstökum aðilum, einstaklingum eða fyrirtækjum, ...``

Þegar athugað er síðan hvað stendur í grg. þá er skýrt tekið fram að hér sé einungis átt við einstaklinga og fyrirtæki. Það er því öldungis ljóst að hv. þm. gengur það til að halda þeim tengslum sem verið hafa á milli ýmissa í Samfylkingunni og einstakra verkalýðsfélaga, launþegahreyfingarinnar enda beitti launþegahreyfingin sér, ekki sem félagsskapur heldur ýmsir af æðstu mönnum launþegahreyfingarinnar, mjög harkalega fyrir því að ná Samfylkingunni saman.