Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 16:18:25 (4918)

2000-03-06 16:18:25# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[16:18]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hér stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Með fjárhagslegum stuðningi er átt við gjafafé eða annars konar styrkveitingu sem hægt er að meta til fjár.``

Nú veit hv. þm. jafn vel og ég að ýmsir af forustumönnum launþegahreyfingarinnar hafa komið fram í nafni hreyfingar sinnar og stutt Alþfl. á sínum tíma, Alþb. og nú Samfylkinguna. Hv. þm. veit líka að Sjálfstfl. ber ekki síður hagsmuni hinna lægst launuðu fyrir brjósti. Mér finnst það nú satt að segja útúrsnúningur í þessu máli. Það er svona rétt eins og ég færi að rifja upp að kjör hinna lægst launuðu versnuðu ár frá ári meðan hv. þm. var ráðherra. Það fer því ekki alltaf saman, góðar óskir og góður vilji og það sem út úr hlutunum kemur.

Ég stóð einungis upp til að vekja athygli á að ýmsir hafa áhyggjur af því að fjármunum og valdi og áhrifum launþegahreyfingarinnar sé beitt fyrir flokkspólitíska vagna. Það er ekki skárri siðspilling en hver önnur. Ég var satt að segja undrandi á því að hv. þm., sem var á sínum tíma í launþegahreyfingunni, skyldi ekki að fyrra bragði taka fram, án þess að vera innt eftir því, að auðvitað er óþolandi ef verið er að beita launþegahreyfingunni fyrir flokkspólitískum hagsmunum og hv. þm. á að lýsa fyrirlitningu sinni á slíkum vinnubrögðum og mönnum sem það gera.