Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 16:49:26 (4922)

2000-03-06 16:49:26# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[16:49]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla að fara nokkrum almennum orðum um frv. það sem hér er til umræðu, um starfsemi og fjárreiður stjórnmálaflokka. Ég vil fyrst segja að ég er í grófum dráttum mjög hlynntur þessu frv. Hér er kveðið á um að til staðar skuli vera opinber stuðningur við stjórnmálaflokka í landinu. Við búum við slíkan stuðning en í þessu frv. er sérstaklega fjallað um það.

Í öðru lagi segir í frv. að bókhald stjórnmálaflokkanna skuli vera opið en að sönnu skuli vera tiltekin viðmiðunarmörk, talan 300 þúsund er þarna nefnd. En þetta er grunntónninn í frv., þ.e. að fjárreiður stjórnmálaflokkanna skuli vera uppi á borði. Undir þetta tek ég.

Í þriðja lagi segir í frv. að um starfsemi stjórnmálaflokkanna skuli gilda ákveðnar reglur til að tryggja að þeir starfi lýðræðislega. Þetta er eðlilegt að gert sé þegar til sögunnar á að koma opinber stuðningur við stjórnmálaflokkana. Það er svo aftur spurning hversu langt eigi að ganga í þessu efni. Ég mundi við nánari skoðun hugsanlega gera athugasemdir við einstakar greinar, þó smávægilegar.

Það er tími til kominn að útrýma ýmsum tímaskekkjum sem við enn búum við, hvimleiðum mjög, t.d. skráningu Sjálfstfl. á kjósendum hér í Reykjavík. Ég veit ekki hvort það tíðkast í öðrum kjördæmum einnig. En þessar persónunjósnir flokksins eru tímaskekkja sem ber að útrýma. Sem betur fer er kveðið á um það í þessu frv. og undir það tek ég heilshugar.

Röksemdafærslan að baki þessu frv. er skýr. Það er ljóst að peningar skipta sífellt meira máli í starfsemi stjórnmálaflokkanna í allri þeirra vinnu og ekki síst í kosningabaráttu. Ég verð þó að játa að mér finnst auglýsingakostnaður stjórnmálaflokka keyra úr hófi fram. Hann hefur aukist jafnt og þétt á liðnum árum og áratugum, mjög svo núna á undanförnum árum. Hitt er svo annað mál að rekstur stjórnmálahreyfingar krefst mikilla fjárútláta. Lýðræðislegt starf flokkanna er dýrt, fundahöld kostnaðarsöm og önnur vinna sem unnin er á þeirra vegum krefst mikilla fjárútláta.

Það er óeðlilegt að stjórnmálaflokkar þurfi að reiða sig á stuðning fyrirtækja í landinu. Það er að sjálfsögðu hvimleitt þegar þeir leggjast í sníkjur eða setja fram fjárbeiðni til fyrirtækja í landinu. Það þarf að finna leiðir til að koma í veg fyrir að flokkarnir þurfi að reiða sig á slík framlög.

Allir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa fengið stuðning frá fyrirtækjum. Það á við um þá hreyfingu sem ég á hlut að, Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð. Sú hreyfing setti sér þær reglur fyrir síðustu kosningar að taka ekki við hærri upphæðum en 500 þúsund kr. og það skyldi þá tilgreint ef um hærri upphæðir væri að ræða. Þetta var það þak sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð setti sér. Það má deila um þessa upphæð. Ég tek undir með þeim sem telja hana vera of háa og tel að við þurfum að endurskoða mörkin. Mér fyndist mjög vel koma til álita að þessi mörk væru mun lægri, 50 þúsund, 100 þúsund, ef yfir höfuð væru einhver slík gólf á ferðinni.

Ég held að það væri stjórnmálaflokkunum til góðs að hafa bókhaldið opið. Ég held að það væri öllum stjórnmálaflokkum til góðs. Hæstv. forsrh. nefndi það í ræðu sinni áðan að því hafi verið haldið fram í fjölmiðlum að Sjálfstfl. og Framsfl. hefðu fengið drjúgan fjárstuðning frá íslensku fyrirtæki sem hér hefur mjög komið við sögu í stjórnmálabaráttunni á undanförnum mánuðum, Íslenskri erfðagreiningu. Hann sagði að þar hefði verið rætt um 70 millj. kr. sem hefðu runnið til hvors stjórnmálaflokksins um sig. Ég held að forsrh. bæti nú nokkuð í. Samkvæmt því sem fjallað var um í fjölmiðlum á sínum tíma þá voru þessar upphæðir mun lægri eða um 20 millj. kr.

Ég held að það sé óheilbrigt og slæmt fyrir stjórnmálaflokk eins og Sjálfstfl. og Framsfl. að búa við sögusagnir af þessu tagi. Ég tek undir það sem hv. þm. Margrét Sverrisdóttir sagði hér áðan: Það væri Sjálfstfl. og Framsfl. til góðs að upplýsa hvort um einhvern fjárstuðning er að ræða frá þessu fyrirtæki, Íslenskri erfðagreiningu og ef svo er, hversu hár hann er og hvort þessar upphæðir eru nálægt sannleikanum. Því hefur verið haldið fram að um sé að ræða 20 millj. kr. Ég hef ekki neinar upplýsingar um slíkt aðrar en þær sem ég hef séð í fjölmiðlum. En mér finnst mjög mikilvægt að stjórnmálaflokkar geri hreint fyrir sínum dyrum.

Ég endurtek að við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum sett þetta mark, 500 þús. kr. Ég tek undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á þau mörk þó ég sé að sjálfsögðu ábyrgur fyrir þeim reglum sem við höfum smíðað okkur eins og aðrir í þessum stjórnmálaflokki og axla þá ábyrgð fyllilega. En ég tek undir að þetta þurfi að endurskoða og ég legg áherslu á að fjármál allra stjórnmálaflokkanna séu uppi á borði. Ég held að það sé lýðræðinu til góðs og mjög mikilvægt að við tökum okkur á í þessum efnum.

Hæstv. forsrh. sagði að þetta snerist í reynd ekki um lög, jafnvel ekki um stjórnarskrá og vísaði þar til Þýskalands þar sem bundið væri í stjórnarskrá landsins að tryggja heiðarlega og opna meðferð fjármuna. Menn geta ekki lögbundið siðferðið, mátti skilja á hæstv. forsrh. Hann sagði að alls staðar þar sem menn búa við reglur eða stjórnmálaflokkar búa við reglur þá fari þeir á bak við þær og þar væri enginn munur á stjórnmálaflokkum.

Ég er ekki alveg viss um að þetta sé rétt. Ég er ekki alveg viss um að það sé rétt að í fyrsta lagi sé enginn munur á stjórnmálaflokkunum. Ég er heldur ekki viss um að reglur skipti engu máli. Mér finnst mikilvægt að við búum við samræmdar reglur í þessum efnum þótt ég taki vissulega undir það sem hæstv. forsrh. sagði, að hverjum og einum stjórnmálaflokkanna er að sjálfsögðu í lófa lagið að upplýsa um fjármál sín og það eiga þeir að gera. En ég tel að við eigum að setja okkur samræmdar reglur.

Aðeins eitt að lokum til leiðréttingar. Hæstv. forsrh. sagði að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefði fengið stuðning frá fyrirtækjum upp á um fjórar millj. kr. Hann var heldur í hógværari kantinum, það er rúmlega þetta, 4.425.000 kr. munu það hafa verið. Hreyfingin varði 9,3 millj. kr. til starfseminnar fyrstu fimm mánuði ársins og þar er kosningabaráttan meðtalin. Reyndar mun þessi upphæð vera ívið hærri vegna þess að til sögunnar kemur einnig tilkostnaður einstakra kjördæmafélaga. En þetta er sú upphæð sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, sem stjórnmálaflokkur, varði til starfsemi sinnar og kosningabaráttunnar á síðasta ári og mun enginn flokkur á Íslandi hafa verið eins hógvær og passasamur í meðferð fjármuna og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð.