Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 17:05:16 (4926)

2000-03-06 17:05:16# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[17:05]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það kemur mér ekki á óvart að þingmaður Frjálslynda flokksins skuli hafa óskað eftir því að bera sakir af flokknum. Hann mun eflaust gera það hér á eftir, ef hæstv. forseti leyfir. En þetta er mjög undarlegur málflutningur af hálfu hv. þm. Kristjáns Pálssonar, að notfæra sér andsvar við mig til þess að ráðast á þriðja aðila, Frjálslynda flokkinn. Ég læt Frjálslynda flokknum og fulltrúum hans eftir að taka þráðinn þar upp.

Ég vildi aðeins vekja athygli á yfirlýsingum hv. þm. Kristjáns Pálssonar um eftirlit Sjálfstfl. með kosningum. Er hann virkilega að telja mönnum trú um það að viðvera fulltrúa flokksins í kjörklefum í Reykjavík sé til að fylgjast með því að ekki fari fram kosningasvik? Er hann að líkja þessu við eftirlit Sameinuðu þjóðanna í ríkjum þriðja heimsins eða fyrrum einræðisríkjum sem eru að fóta sig á hálu svelli lýðræðisins? Er hann að líkja þessari njósnastarfsemi Sjálfstfl. við eftirlitsstarf Sameinuðu þjóðanna? Þetta er fáheyrt og gersamlega út í hött.