Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 17:07:37 (4928)

2000-03-06 17:07:37# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[17:07]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur komið fram í fjölmiðlum að Íslensk erfðagreining studdi Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð. Þetta hefur verið staðfest. Það hefur jafnframt komið fram að ekkert fyrirtæki veitti Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði fjárstuðning umfram 500 þús. kr. Það hefur einnig komið fram að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð gerði í kjölfarið samkomulag við styrktaraðila um að ekki yrði greint frá einstökum fjárframlögum undir 500 þús. kr. Þetta er alveg skýrt af hálfu hreyfingarinnar.

Ég hef hins vegar sagt að mér finnist þessi upphæð of há. Mér finnst vel koma til álita og mjög líklegt að það verði tekið til endurskoðunar hvar þessi mörk skuli liggja, hvort þau eru 50 þús. eða 100 þús. Það er nokkuð sem við munum taka lýðræðislega á.

Reyndar er ég þeirrar skoðunar að við eigum að bindast samtökum um það, allir stjórnmálaflokkar, að hafa þessi mörk sem allra lægst ef þau yfir höfuð eiga að vera fyrir hendi.