Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 17:12:33 (4933)

2000-03-06 17:12:33# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[17:12]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vona að hæstv. forsrh. sé hér nálægt og hlýði á mál mitt enda er full ástæða til miðað við ræðu hans hér áðan. Ég spyr hæstv. forseta um það. Mér finnst nú verra að klukkan sé látin ganga á mig meðan verið er að sækja forsrh. í salinn.

(Forseti (GuðjG): Hæstv. forsrh. er ekki í húsinu.)

Ég verð að segja, herra forseti, að það er ákaflega sérkennilegt að hæstv. forsrh. yfirgefi húsið eftir þá ræðu sem hann flutti áðan án þess að bíða eftir því að sú sem hér stendur, sem hann beindi ýmsum árásum að, fái tækifæri til að svara hæstv. ráðherra. Ræða hæstv. forsrh. gaf ekki tilefni til þess að ég færi í stutt andsvar áðan. Þess vegna bað ég um orðið vegna ræðu hæstv. forsrh. Ég hygg að hæstv. forsrh. hafi verið það fullkunnugt.

Ég mun engu að síður halda áfram máli mínu en ég býst við, herra forseti, að æskilegt og rétt sé að fara fram á að þessari umræðu ljúki ekki fyrr en hæstv. forsrh. sér ástæðu til að vera viðstaddur lok umræðunnar.

[17:15]

Ég hafði búist við því, herra forseti, að hér færi fram málefnaleg umræða af hálfu hæstv. forsrh. um þá skýrslu sem við ræðum og hefur verið fimm til sex ár í fæðingu. En mér varð ekki að ósk minni og það var ekkert í ræðu minni sem gaf hæstv. forsrh. tilefni til þess að upphefja þær dylgjur og þann ómálefnalega málflutning sem hann gerði hér.

Það er vissulega mjög athyglisvert að þegar verið er að ræða fjármál stjórnmálaflokkanna er eins og hæstv. forsrh. missi yfirleitt stjórn á sjálfum sér, komist í mikið ójafnvægi og verði nokkuð æstur.

Það er ýmislegt sem hæstv. forsrh. sagði áðan sem hann þarf að svara fyrir. Ég er bara að tala um þær dylgjur sem hæstv. forsrh. setti fram að því er varðar Öryrkjabandalagið. Hæstv. forsrh. talaði um að Öryrkjabandalagið hafi verið með áróðursauglýsingar tengdar Samfylkingunni í síðustu kosningum. Það er fyrir neðan virðingu hæstv. forsrh. að tala svona. Ég held að hæstv. forsrh. verði að standa fyrir máli sínu og sanna það sem hann fer hér með, að Öryrkjabandalagið hafi verið með áróðursauglýsingar fyrir Samfylkinguna, tengdar Samfylkingunni, sagði hæstv. forsrh. Hæstv. forsrh. kýs að setja málið fram með þeim hætti eftir að hafa verið í forsæti fyrir ríkisstjórn sem hefur dregið niður kjör öryrkja í góðæri, og væri hægt að hafa langt mál um hvernig kjör öryrkja hafa dregist aftur úr öðrum þjóðfélagshópum í hans tíð sem forsrh. Nei, hæstv. forsrh. ræðir það ekki undir þeim eðlilegu kringumstæðum þegar við erum að ræða hér kjör öryrkja, heldur kýs hann í alls óskyldri umræðu að ráðast með heift að Öryrkjabandalaginu og segja að það hafi verið með áróðursauglýsingar tengdar Samfylkingunni. Hæstv. forsrh. verður að sanna mál sitt í þessum ræðustól eða á annan hátt og ég óska þess, herra forseti, að þessari umræðu ljúki ekki fyrr en það liggur fyrir.

Þetta er auðvitað það sama og þegar hæstv. forseti þingsins var með dylgjur um að verkalýðshreyfingin hefði sett peninga til Samfylkingarinnar. Það er ekki hægt að láta slíku ómótmælt og þessu þarf hæstv. forsrh. að standa fyrir.

Það var ýmislegt annað athyglisvert sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh. Hann kaus að ræða afar lítið um þá skýrslu sem búið er að vera í fimm til sex ár að vinna og ekkert kemur út úr, nákvæmlega ekki neitt nema að styrkja forsetaframbjóðendur. Annað er bara óbreytt ástand. Af hverju var það sem þessi nefnd var sett á laggirnar? Sjálfstfl. barðist fyrir því að þeir sem veittu framlög til stjórnmálaflokkanna fengju þau frádráttarbær upp að ákveðnum hluta. Um það var samkomulag árið 1993 í þessum þingsal gegn því að sett yrði á laggirnar nefnd til að vinna að undirbúningi lagasetningar um fjármál stjórnmálaflokkanna. Þannig skildi ég það, þannig skildu fleiri það. Það voru ýmsir tregir í þá lagasetningu um frádrátt af framlögum frá tekjum einstaklinga eða fyrirtækja nema slíkt kæmi fram. Nú liggur þessi skýrsla fyrir þar sem ekkert á að gera og hæstv. forsrh. sem skipaði þessa nefnd kýs bara að vera hér með dylgjur í garð annarra í staðinn fyrir að ræða skýrsluna. Hann ræddi t.d. ekkert um rökin sem nefndin setur fram fyrir því að það eigi ekki að setja lög um fjárreiður og starfsemi stjórnmálaflokkanna þar sem með fáránlegum hætti er vitnað í stjórnarskrána og ákvæði sem sett var inn í hana 1995 um félagafrelsi, og því haldið fram að stjórnmálaflokkarnir hafi raunverulega komist í skjól með því ákvæði sem sett var í stjórnarskrána á sínum tíma og því þurfi ekki að setja nein lög um að þeir birti fjármál sín opinberlega. Þetta er auðvitað fráleitt en hæstv. forsrh. kaus að eyða ekki einu orði í það, ekki einu orði, heldur segir hann sem rök að það sé svo auðvelt að fara fram hjá reglunum og vitnar til Þýskalands í því sambandi. Það getur vel verið að hægt sé að fara fram hjá slíkum reglum en ég spyr: Eiga menn fyrir fram að gefast upp við það? Væri þá ekki eins hægt að segja varðandi skattalögin: Af því að menn svíkja undan skatti og fara fram hjá lögum og reglum, þá eigum við ekki að setja nein skattalög? Það er auðvitað hægt að vitna í fleiri lög sem farið er fram hjá. Þetta eru engin rök hjá hæstv. forsrh. Þetta eru rök sem ég kalla rökþrot hjá manni sem vill ekki slík lög eða flokkur hans. Og hæstv. forsrh. nefndi það ekki, og ég hlífði honum við því í framsögu minni þó að hann kysi að vera með dylgjur og ómálefnalegan málflutning, að Sjálfstfl. er eini flokkurinn af öllum stjórnmálaflokkum sem ekki hefur birt ársreikninga sína opinberlega.

Það er alveg rétt sem fram kom hjá hæstv. forsrh. að reikningar eru misjafnlega fram settir. Sumir eru settir fram á þann hátt að þá þarf að sundurliða meira. Þetta frv. gengur einmitt út á það að reikningar séu settir fram í samræmdu formi hjá stjórnmálaflokkunum til þess að þeir séu m.a. samanburðarhæfir. Þess vegna er verið að leggja til að þeir birti ársreikninga sína opinberlega og líka að þeir séu framtalsskyldir þó að þeir séu ekki skattskyldir vegna þess að ef þeir eru framtalsskyldir eru reikningar flokkanna settir fram með sambærilegum hætti.

Hæstv. forsrh., sem fer fyrir flokki sem telur sig aldrei þurfa að birta ársreikninga sína, bar hér líka fram að í síðustu kosningabaráttu hefði Sjálfstfl. eytt 70--80% minna en Samfylkingin. Ég skora á hæstv. forsrh. og flokk hans að birta ársreikninga sína opinberlega til að staðfesta þetta sem hann segir í ræðustól. Hann getur auðvitað nefnt hvaða tölu sem er, jafnvel að þeir hafi ekki eytt nema 10% af því sem Samfylkingin hefur gert af því að þeir birta aldrei ársreikninga sína opinberlega. Og nú er komin skýrsla sem segir að það eigi ekkert að gera í þessu máli og undir það hefur hæstv. forsrh. tekið í þessum ræðustól. Þess vegna skora ég á hæstv. forsrh. að beita sér fyrir því að ársreikningarnir hjá Sjálfstfl. verði birtir opinberlega til að sannreyna þá tölu, að síðasta kosningabarátta Sjálfstfl. hafi kostað 70--80% minna en hjá Samfylkingunni.

Hæstv. forsrh. ræddi líka mikið um Íslenska erfðagreiningu og þær upplýsingar sem fram komu um stuðning Íslenskrar erfðagreiningar við stjórnmálaflokkana í síðustu kosningabaráttu. Miðað við það sem fram hefur komið um Íslenska erfðagreiningu og stuðning Íslenskrar erfðagreiningar við stjórnmálaflokkana, því er m.a. haldið fram að Sjálfstfl. hafi líka fengið stuðning frá Íslenskri erfðagreiningu, ég hef ekki hugmynd um það, það getur vel verið að hann hafi ekkert fengið frá Íslenskri erfðagreiningu, en hæstv. forsrh. sem talaði mikið um stuðning Íslenskrar erfðagreiningar við aðra stjórnmálaflokka verður þá jafnframt að lýsa því yfir að Sjálfstfl. hafi aldrei þegið neitt frá Íslenskri erfðagreiningu vegna þess að sumir segja að fjáröflun Sjálfstfl. fari ekki fram rétt fyrir kosningar heldur á miðju kjörtímabili og getur verið, ég hef ekki hugmynd um það, að Sjálfstfl. hafi einhvern tíma, t.d. á miðju kjörtímabili fengið eitthvað frá Íslenskri erfðagreiningu. Ég er ekki að halda því fram, en ég spyr hæstv. forsrh. hvort hann geti staðið í þessum ræðustól og sagt að Sjálfstfl. hafi aldrei, hvorki rétt fyrir kosningabaráttuna né áður eða einhvern tíma þegið eitthvað frá Íslenskri erfðagreiningu.

Síðan ræddi hæstv. forsrh. í dylgjum sínum um þá sem misnota aðstöðu sína og talaði um einstaklinga sem hverfa frá flokki sínum til að ná sér í framlag. En hæstv. forsrh. ræddi ekki um hvernig þessi nefnd sem skipuð er framkvæmdastjórum stjórnmálaflokkanna, að ég held, hefur verið með geðþóttaákvarðanir í því efni og það þekkir sú sem hér stendur, vegna þess að ég hafði auðvitað ekki hugmynd um það þegar ég fór úr Alþfl. að ég ætti rétt á einhverjum styrk, kafaði ekkert ofan í það á einn eða annan hátt. Það upplýstist tveim eða þremur árum síðar að ég hefði átt rétt á ákveðnum stuðningi þar en framkvæmdastjórar flokkanna eða formenn sáu enga ástæðu til þess að upplýsa mig um það. Og auðvitað á ekki nefnd framkvæmdastjóra flokkanna að vera að ákveða hvað flokkarnir fá. Það á að vera nefnd óháð flokkunum og utan þings sem ákveður framlög til stjórnmálaflokkanna en ekki að þeir séu að ákveða þetta sjálfir. En svona voru dylgjur forsrh., herra forseti, og hann yfirgefur bara húsið þegar hann veit að það á eftir að svara þeim dylgjum sem hann fór hér með.

Síðan ræddi hæstv. forsrh. um Þjóðvaka og sagði að 1995 hefði Þjóðvaki verið með fyrirslátt vegna þess að hann hefði ekki viljað vera í þessari nefnd. Ég upplýsti það í framsöguræðu minni að Þjóðvaki spurði forsrh. á árinu 1995 bréflega um hver verklýsing nefndarinnar væri og skilgreiningu á verkefni nefndarinnar, hvenær hún ætti að ljúka störfum og hvert verksviðið ætti að vera. Átti það að ná yfir starfsemi stjórnmálaflokkanna eða bara fjármálin eða hvert var verksviðið? Við fengum ekkert svar og engar upplýsingar og við vildum ekki taka þátt í því vegna þess að okkur grunaði að niðurstaðan yrði sú sem verið er að ræða í dag. Niðurstaða um nákvæmlega ekki neitt eftir fimm til sex ára starf stjórnmálaflokkanna.

Af því að hæstv. forsrh. er að spyrja um hvort Samfylkingin muni birta reikninga sína opinberlega, þá hefur talsmaður Samfylkingarinnar lýst því yfir að þeir verði birtir opinberlega og ég ítreka það enn og aftur að í stefnuskrá Samfylkingarinnar kemur fram að setja eigi lög um fjármál stjórnmálaflokkanna. Ég lít svo á að þessi skýrsla sé fyrst og fremst lágmarkssamnefnari milli þessara flokka sem hægt var að ná samstöðu um, sem er auðvitað ekki neitt. Það er tvennt: að skilgreina betur í fjárlagafrv. sjálfu ákvæði sem lúta að fjárstuðningi og hins vegar varðandi forsetaframboð.

Herra forseti. Það er ástæða til að ræða þetta frekar. Ég sé að klukkan tifar á mig en ég óska eftir því að þessari umræðu ljúki ekki fyrr en hæstv. forsrh. verður viðstaddur umræðuna og svarar þeim dylgjum sem hann setur hér fram í ræðustól, t.d. gagnvart Öryrkjabandalaginu, og það eru fleiri þættir sem forsrh. þarf að svara. Hann flýr út úr húsi og er ekki viðstaddur eftir að hafa sett fram slíkar dylgjur. Slíkt, herra forseti, er ekki hægt að líða í þingsölum. Ég óska því eftir að þessari umræðu ljúki ekki.