Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 17:32:41 (4936)

2000-03-06 17:32:41# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[17:32]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmönnum Jóhanni Ársælssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur um að hlé verði gert á þessari umræðu þar til hæstv. forsrh. getur tekið þátt í henni og svarað þeim rökum sem fram hafa verið reidd. Sjálfur var hæstv. forsrh. mjög þungorður og kom fram með mjög óvægna gagnrýni sem hér hefur verið lýst sem alvarlegum dylgjum og mér finnst eðlilegt að um þetta fari fram umræða í þinginu þannig að ég tek undir með hv. þingmönnum Jóhönnu Sigurðardóttur og Jóhanni Ársælssyni að hlé verði gert á þessari umræðu og henni ljúki ekki fyrr en hæstv. forsrh. gerir betur grein fyrir sínum sjónarmiðum.

Við erum að ræða mjög mikilvæg mál, fjárreiður stjórnmálaflokkanna. Fram hafa komið mjög alvarlegar fullyrðingar í þessari umræðu um hlutdeild almannasamtaka í rekstri stjórnmálaflokka og ég tel mjög brýnt að við verðum við óskum þessara hv. þingmanna og beini því mjög eindregið til hæstv. forseta að hann geri hlé á þessari umræðu og henni verði ekki fram haldið fyrr en hæstv. forsrh. verður viðstaddur.