Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 17:44:35 (4939)

2000-03-06 17:44:35# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[17:44]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég óska eftir að heyra röksemdir hæstv. forseta þingsins um að verða ekki við þeim óskum sem fram hafa komið frá nokkrum þingmönnum úr fleiri en einum stjórnmálaflokki um að hlé verði gert á þessari umræðu þar til hæstv. forsrh. verði viðstaddur. Sjálfur hefur hann sett fram mjög alvarlegar dylgjur og ásakanir í garð almannasamtaka og stjórnmálaflokka og það hefur komið fram í hans máli og annarra að stjórnarflokkarnir, Framsfl. og Sjálfstfl., hafi þegið miklar fjárhæðir frá tilteknum nafngreindum fyrirtækjum, Íslenskri erfðagreiningu. Menn hafa ekki fyrir sér annað en sögusagnir í þessum efnum. En þetta er umræða sem hefur verið á kreiki í íslensku þjóðfélagi. Hér erum við komin að kjarna máls, þ.e. að fjárreiður stjórnmálaflokkanna séu uppi á borði og öllum opnar. Þetta er mikilvægt og við höfum óskað eftir því að hæstv. forsrh. geri hreint fyrir sínum dyrum og það er eðlileg ósk. Það eru lýðræðisleg tilmæli að hæstv. forseti þingsins verði við þeim óskum sem hér hafa komið fram um að fresta þessari umræðu þar til hæstv. forsrh. verði viðstaddur. Reyndar teldi ég eðlilegt í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram að oddviti Framsfl. komi hér einnig við sögu.

(Forseti (GuðjG): Forseti getur endurtekið það sem hann hefur áður sagt, að hér er aðeins um að ræða 1. umr. af þremur. Málið kemur aftur til 2. umr. væntanlega og þá geta menn óskað eftir þeim sem þeir vilja ræða við. Hæstv. forsrh. hefur þegar tekið þátt í þessari umræðu.)