Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 17:55:38 (4943)

2000-03-06 17:55:38# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[17:55]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þegar ég horfi yfir þessa sali rennur skyndilega upp fyrir mér að ef frá er talin hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, þá eru sá sem hér stendur og hæstv. forseti með allra elstu mönnum hvað þingaldur varðar í þessum sal í dag. Ég minnist þess ekki, herra forseti, að á þeim tíma sem ég og sá hv. þm. sem nú situr í forsetastóli höfum verið saman í þessum sölum, sem er að verða áratugur, hafi þetta nokkru sinni gerst.

Það er dálítið sérstakt sem er að fara fram núna, herra forseti. Það sem gerðist í dag var að hæstv. forsrh. kemur hér og kastar handsprengju og reyndar fleiri en einni inn í umræðuna. Síðan tekur hann hatt sinn og staf og gengur á braut eins og fínn maður. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kemur hér með fjölmargar staðhæfingar og spurningar sem ákaflega nauðsynlegt að fá svör við og fá fram viðhorf hæstv. forsrh. gagnvart. En hæstv. forsrh. er önnum kafinn annars staðar.

Þá gerist það að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fer fram á að umræðunni verði frestað til einhvers ótiltekins dags þegar hæstv. forsrh. kann að þóknast að heiðra þingið aftur með nærveru sinni út af þessari titeknu umræðu. Hæstv. forseti hefur hafnað þeirri beiðni. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gengur þá enn lengra til málamiðlunar og óskar eftir því að fundi verði frestað á meðan forsetar þingsins komi saman til þess að ræða þetta. Það kemur fram hjá hæstv. forseta, sem vissulega er röggsamur þegar hann situr í stóli forseta, að hann hefur ákveðnar skoðanir á því hvers vegna eigi ekki að verða við bón hv. þm. Viðhorf hæstv. forseta er að þetta sé fyrsta umræða af þremur.

Herra forseti. Ég hef rökstuddan grun um það að þetta verði fyrsta og síðasta umræðan um þetta mál. Hæstv. forsrh. hefur beinlínis sagt að hann sé á móti málinu. Miðað við þær starfsvenjur sem hér ríkja tel ég ákaflega ólíklegt að það verði til að veita málinu brautargengi að það viðhorf skuli liggja fyrir af hálfu hæstv. forsrh.

Hins vegar held ég að það skipti máli varðandi líkurnar á því að frv. komi aftur að hv. þm. fái svör við þeim spurningum sem hún hefur kastað fram. Hún og aðrir hv. þm. stjórnarandstöðunnar sem hafa tekið til máls hafa varpað fram spurningum til hæstv. forsrh. sem varða lykilþætti málsins. Ég held að ef svör fengjust við þessum spurningum kynni það að ráða úrslitum um hvort málið nær því gengi í viðkomandi nefnd þingsins að það komist aftur til umræðu hingað. Þess vegna, herra forseti, mælist ég eindregið til þess og ítreka að það liggja fyrir beiðnir tveggja formanna þingflokka stjórnarandstöðunnar um að þessari umræðu verði frestað til einhvers þess dags sem hæstv. forsrh. getur komið og heiðrað okkur aftur með nærveru sinni til að ræða þetta mál og þær handsprengjur sem hann varpaði hér inn í salinn í dag.