Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 17:59:06 (4944)

2000-03-06 17:59:06# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[17:59]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við höfum fengið mjög skýr og afdráttarlaus svör frá forseta þingsins. Við höfum margsinnis komið upp, fulltrúar stjórnarandstöðunnar, og mótmælt þeim vinnubrögðum sem hér eru höfð í frammi og þeim málamyndamálatilbúnaði sem komið hefur úr forsetastóli í þessu efni.

Hæstv. forseti þingsins sagði áðan, þegar hann vildi rökstyðja þá ákvörðun sína að ljúka umræðunni nú og verða ekki við eindregnum óskum stjórnarandstöðunnar um að fresta umræðunni þar til hæstv. forsrh. gæti verið til staðar, að því fyrr sem við lykjum umræðunni nú, því fyrr sem frv. færi til nefndar, þeim mun fyrr kæmi það aftur inn í þingsal til umfjöllunar. Þetta er málatilbúnaður til málamynda. Þetta eru falsrök og falsveruleiki. Ég vil, herra forseti, nota þessi lokaorð mín í þessari umræðu núna til að mótmæla þeim rökum sem komið hafa úr forsetastóli í þessu efni.