Skipan nefndar um sveigjanleg starfslok

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 18:34:29 (4950)

2000-03-06 18:34:29# 125. lþ. 72.5 fundur 312. mál: #A skipan nefndar um sveigjanleg starfslok# þál. 16/125, DrH
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[18:34]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu þáltill. um skipan nefndar til að móta tillögur um sveigjanleg starfslok. Herra forseti. Ég tel það afar mikilvægt að fólk hafi eitthvað um það að segja sjálft hvenær að starfslokum kemur því ekki eru allir steyptir í sama mót og hentar ekki öllum það sama.

Er ekki hægt að draga úr vinnu í áföngum þannig að hinn aldraði starfsmaður geti dregið smátt og smátt úr vinnu? Mikill akkur getur verið í því að nýta sér þá sérþekkingu og reynslu sem starfsmaðurinn býr yfir. Aldur er mjög afstæður og þar skiptir heilsan öllu máli. Margir hlakka til þessara tímamóta og eru búnir að undirbúa starfslokin í tíma og njóta þeirra út í æsar og hafa gert sér það ljóst að það er líf eftir lífsstarf.

Ein af stóru breytingunum á seinni hluta ævinnar er þegar starfslok eiga sér stað. Það er tímabil í lífi fólks þar sem óvissa og kvíði er oft mikill. Sumir fyllast vonleysi og telja að tilgangi lífsins sé lokið, þeir séu ekki til nokkurs gagns og missa jafnvel alla lífslöngun. Mörgum reynist það erfitt hlutskipti í lífinu þegar kemur að þeirri staðreynd að þeir verða að hætta að vinna þrátt fyrir að þeir hafi enn þá starfsþrek og gleði af vinnunni.

Í könnunum hefur komið fram að árin fyrir starfslok og starfslokin sjálf reynast mörgum erfið en hins vegar er yfirgnæfandi meiri hluti ánægður með líf sitt tveimur árum eftir starfslok. Einkum eru það tveir þættir sem skipta þá mestu máli. Annars vegar er það heilsan og hins vegar efnahagurinn en tekjur minnka hjá flestum þegar þeir hætta að vinna launavinnu. Einstaklingarnir eru ekki allir steyptir í sama mót og heilsufar er mismunandi. Við starfslokin upplifir einstaklingurinn eina mestu stöðubreytingu sem verður á starfsævinni. Sérstaklega eru þetta miklar breytingar hjá þeim sem lifa fyrir vinnuna og hafa stundað vinnu nánast alla sína ævi. Þeir sem ekki hafa tekið þátt í félags- og tómstundastarfi eiga á hættu að einangrast í samfélaginu. Það þarf að verða viðhorfsbreyting þannig að við förum að líta á þetta æviskeið sem hluta af lífinu, starfslok eru ekki endalok heldur upphaf einhvers annars.

Herra forseti. Það er afar mikilvægt að huga betur að sveigjanlegum starfslokum, að fólk hafi eitthvað um það að segja sjálft hvenær það ákveður að hætta, hvort það vill hætta fyrr eða seinna. Vinnan hefur áhrif á hvernig við skipuleggjum líf og hverja við umgöngumst dagsdaglega, hún skapar rammann um allt okkar daglega líf. Þegar kemur að starfslokum hverfur þessi reglubundni taktur í hversdagslífinu og meiri tími gefst þá til tómstunda.

Oftar en ekki eru þessi tímamót erfiðari fyrir karlmenn en konur. En æviferillinn er ein heild frá vöggu til grafar og öll aldursskeið eiga að vera mikilvæg. Sumir missa heilsuna fljótt en aðrir eru heilsugóðir og með mikið starfsþrek fram eftir öllum aldri. Nú á tímum sjáum við miklar breytingar í bættu heilsufari hjá eldri borgurum og mun virkari þátttöku þeirra í lífinu. Trúlega er það mikill sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið þegar fólk fær að ráða því sjálft hvenær það hættir störfum en er ekki neytt til að hætta að vinna. Oft á tíðum missir fólk einfaldlega heilsuna við starfslok ef einstaklingurinn er ekki sáttur við starfslokin og þau tímamót. Öll umræða um þá breytingu sem verður í lífinu eftir starfslokin er af hinu góða en við getum aldrei búið hvern og einn undir það hvernig lífi hans verði háttað þegar þessar breytingar verða.

En við getum hjálpað einstaklingnum til að gera sér grein fyrir hvað er í vændum. Í könnunum hefur einnig komið fram að árin fyrir starfslok reynast mörgum erfið en svo sættir fólk sig við það eftir tvö ár. Mestu máli skiptir að einstaklingurinn sé virkur þátttakandi í samfélaginu en fái ekki þá tilfinningu að við það að komast á vissan aldur sé hann settur til hliðar eins og hver annar hlutur sem hefur gegnt hlutverki sínu. Það skiptir miklu máli og er mjög mikilvægt, trúlega það mikilvægasta af öllu að hann trúi því að hann hafi áhrif á eigin framtíð og sjái hana sem hluta af samfelldri heild.