Skipan nefndar um sveigjanleg starfslok

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 18:39:47 (4951)

2000-03-06 18:39:47# 125. lþ. 72.5 fundur 312. mál: #A skipan nefndar um sveigjanleg starfslok# þál. 16/125, ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[18:39]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Ég er einn flm. þessarar þáltill. sem hér er til umræðu um skipan nefndar til að móta tillögur um sveigjanleg starfslok. Ég tel að það sé afskaplega mikilvægt að þessi tillaga nái í gegn á hinu háa Alþingi því að við vitum öll um þá umræðu sem hefur átt sér stað á undanförnum mánuðum og missirum um mikilvægi þess að geta tengt saman fjölskyldulíf og athafnalíf. Ég tel einmitt sveigjanleg starfslok vera einn af þeim lykilþáttum í að tengja þessi atriði, þ.e. atvinnulíf og fjölskyldulíf.

Við ræddum hér ekki alls fyrir löngu frv. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þá voru einmitt þessi fjölskylduviðhorf til mikillar umræðu hér á Alþingi og kom skýrt fram í ræðum hv. þm. að þetta væri einn þáttur í því að samræma þessi viðhorf.

Ég tel að skipan þessarar nefndar skipti líka máli þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi mótað formlegan samstarfsvettvang þar sem eru fulltrúar aldraðra og hæstv. forsrh., heilbrrh., félmrh. og fjmrh., því ég tel að þessi nefnd geti leitt til þess að enn frekar verði ýtt á þessa skipan mála, þ.e. að gera starfslokin, sem eru svo mikilvægur þáttur í lífi hvers vinnandi manns, sveigjanleg.

Það er margt sem ég vona að komi til með að ýta á að þetta nái fram að ganga, að þessi viðhorf náist fram á vinnumarkaðinum. Það er ekki bara það að skortur sé á vinnuafli og aukin framleiðni í þjóðfélaginu, efnahagsmálin í góðu lagi og stöðugleikinn sem leiðir m.a. til þess að þessi sveigjanleiki verði mögulegur án þess að launin verði skert, því að eins og kemur fram í ályktun Félags eldri borgara frá síðasta ári er andlegt og líkamlegt atgervi eldra fólks miklu betra í dag en var á árum áður.

Það er þar sem mér finnst við koma að ákveðnu lykil\-atriði. Við eigum ekki að vera að niðurnjörva þessi merkilegu tímamót í ævi hvers manns því einstaklingarnir eru misjafnir og mismunandi eins og hér hefur komið fram í ræðum hv. þm. Því tel ég að sé afskaplega mikilvægt að fólkið fái þetta val, að við séum ekki í lögum og lagasetningum og reglugerðum að niðurnjörva það hvenær fólk hættir að vinna og hvenær ekki.

Herra forseti. Ég ætla ekki að ítreka frekar það sem hefur komið fram hér í ágætum ræðum flm., hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar og hv. þm. Drífu Hjartardóttur. Ég tel að það sé sérstaklega mikilvægt þegar við hugsum um starfslok að við lítum til þess verðmætis sem felst í reynslu eldri starfsmanna og sú reynsla er alltaf að verða meiri og meiri, m.a. ef við hugsum til þeirrar endurmenntunar og símenntunar sem við erum alltaf að leggja frekari áherslu á í dag. Ég tel því mjög mikilvægt að litið verði til reynslu eldri starfsmanna og þeim verði veittur þessi kostur að hætta smám saman í stað þess að hverfa skyndilega út af vinnumarkaðinum. Við gætum t.d. haft starfslokin í ákveðnum þrepum, við gætum reynt að hugsa líka til sveigjanleika varðandi eftirlaun og það er margt hægt að tína hér til, t.d. hlutavinnu, ég held að það mundi auðvelda fólki að hætta, auðvelda fólki starfslokin ef við mundum draga inn hlutastörfin. Eldri borgarar hafa lagt áherslu á þetta allt í málflutningi sínum og ég, herra forseti, vil leyfa mér að taka undir það.