Skipan nefndar um sveigjanleg starfslok

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 18:53:14 (4953)

2000-03-06 18:53:14# 125. lþ. 72.5 fundur 312. mál: #A skipan nefndar um sveigjanleg starfslok# þál. 16/125, GAK
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[18:53]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er hreyft hinu þarfasta máli sem ég held að ætti að vera mjög í takt við þá tíma sem við lifum á. Hins vegar hefur það oft verið svo á undanförnum árum að fólki hefur verið gert að hætta störfum vegna aldurs. Við höfum líka heyrt viðhorf margra atvinnurekenda um að menn vilja ekki ráða fólk til starfa sem komið er yfir ákveðinn aldur. Þessu viðhorfi þurfum við auðvitað að breyta. Tillagan er því mjög góð og tímabær.

Stéttarfélagspólitík undanfarinna ára hefur byggt á því að stéttarfélögin hafa gert sífellt meiri kröfur til þess að launþegum í stéttarfélögum væri gert kleift að endurmennta sig, fara á endurmenntunarnámskeið, gert mögulegt að kynnast nýjum aðferðum og breyta þekkingargrunni sínum. Allt ætti þetta að stuðla að því að viðkomandi starfsmenn væru hæfari til að vinna áfram á vinnumarkaðnum. Ekki kannast ég við að í slíkum ákvæðum hjá stéttarfélögum varðandi endurmenntun eða annað slíkt sé nokkurs staðar minnst á starfsaldur eða mönnum séu nokkur takmörk sett í slíkri endurmenntun miðað við starfsaldur. Ég held að stéttarfélögin hafi í raun og veru mótað þá afstöðu að endurmenntun sem slík ætti að standa öllum til boða á hvaða aldri sem þeir væru. Þetta sjónarmið held ég að hljóti þá að leiða okkur til þeirrar ályktunar að þeir sem hafa á starfsaldri sínum verið að endurmennta sig og taka alls konar námskeið til þess að efla þekkingu sína hljóti að vera betri starfskraftar eftir en áður og það eigi að gefa þeim val. Við höfum ekki boðið upp á val um starfslok í miklum mæli á íslenska vinnumarkaðnum. Ég held því að sú tillaga sem hér er flutt sé mjög af hinu góða og ég þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir að hafa komið með hana inn í þingsali og þeim sem styðja hann í þeim málum.

Ég held að þetta sé hið besta mál og geri mögulegt fyrir fólk sem hefur misjafnan tekjugrunn að laga sig að því hvenær það vill ljúka störfum ef þetta gæti gengið eftir. Það væri vissulega til mikilla bóta fyrir utan það að ég lít svo á að reyndir starfsmenn, sem halda góðri heilsu, séu mjög verðmætir hverri atvinnugrein og hverri atvinnustétt og geti miðlað mjög mikilli þekkingu og reynslu til þeirra sem yngri eru. Að öllu samanlögðu tel ég að hér sé hreyft hinu merkasta máli sem ég mun styðja.