Skipan nefndar um sveigjanleg starfslok

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 18:56:50 (4954)

2000-03-06 18:56:50# 125. lþ. 72.5 fundur 312. mál: #A skipan nefndar um sveigjanleg starfslok# þál. 16/125, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[18:56]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég tek til máls til þess að lýsa stuðningi við þá þáltill. sem er til umræðu um að skipuð verði nefnd til að móta tillögur um sveigjanleg starfslok.

Í þjóðfélaginu í dag er margt breytt sem kallar á þessa vinnu. Við erum einfaldlega langlífari, við erum heilsuhraustari, við höfum meiri mögulega til að endurmennta okkur og símennta. Starfskraftar eldra fólks ættu því að nýtast betur úti í þjóðfélaginu með sveigjanlegum starfslokum en gert er nú með því að klippa svo ákveðið á starfsaldurslokin eins og í núgildandi lögum.

Því miður halda ekki allir góðri heilsu. Starfsþrekið getur líka minnkað. Þegar fer að nálgast hin hefðbundnu starfslok mundu ýmsir gjarnan vilja minnka við sig og á þetta ekki síður við um konur í hefðbundnum kvennastörfum en við karla. Því miður eru reglurnar úti á vinnumarkaðinum þannig að erfitt hefur verið að minnka við sig og fara í hlutavinnu vegna þess að öll réttindi hafa verið miðuð við fulla vinnu.

Það að geta unnið lengur og haldið sér við hvað menntun snertir og aflað sér frekari reynslu í starfi skilar sér inn í vinnuna og inn í þjóðfélagið. Það er ekki allt fengið með unga fólkinu, góðu námi og háskólamenntun eins og við krefjumst á æ fleiri sviðum í dag því reynslan hefur líka mikið að segja. Þó svo okkur beri skylda til þess að mennta þjóðina og skila henni vel menntaðri út í atvinnulífið megum við ekki gleyma því að reynslan er líka verðmæt. Það hefur farið illa fyrir þeim fyrirtækjum sem hafa yngt of skarpt upp hjá sér, látið hina eldri víkja fyrir hinum yngri jafnvel áður en þeir hafa verið komnir á eftirlaunaaldur þegar reynslan hefur horfið og eingöngu hið nýja úr bókunum hefur verið eftir í fyrirtækjunum. Það verður að hafa ákveðna kjölfestu. Þeir sem halda góðri heilsu geta sannarlega miðlað inn í atvinnulífið líka. Það yrði mikið framfaraspor ef við mundum samþykkja þessi þáltill., bæði til þess að geta hætt fyrr og unnið lengur eftir því sem heilsan leyfir.