Hætta af völdum bensín- og olíuflutninga um Reykjanesbraut

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 19:15:18 (4959)

2000-03-06 19:15:18# 125. lþ. 72.6 fundur 320. mál: #A hætta af völdum bensín- og olíuflutninga um Reykjanesbraut# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[19:15]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég held að með þeirri þáltill. sem við ræðum hér um hættu vegna farmflutninga á Reykjanesbrautinni sé vakin athygli á mjög þörfu og góðu máli. Ég hef reyndar furðað mig á því hvers vegna olíuflutningar hafa í svo ríkum mæli verið stundaðir á þjóðvegum landsins.

Nú hagar svo til, a.m.k. í Keflavík, að ekki er langt síðan að byggð var sérstök olíumóttaka og sérstök olíuhöfn í Helguvík. (HjÁ: Í Reykjanesbæ.) Í Reykjanesbæ. Já, hv. þm. Hjálmar Árnason, í Reykjanesbæ. Ég vil bara lýsa þeirri skoðun minni að ég held að æskilegt sé að efni eins og olía sé flutt í miklu meiri mæli sjóleiðina, ekki síst á svæði eins og Reykjanesskaganum.

Á Reykjanesskaganum er eins og flestir vita þannig jarðvegur að auðvelt er fyrir ýmis efni að komast niður í grunnvatnið. Ég held að við séum að bjóða hættunni heim með því að stunda olíuflutninga í jafnmiklum mæli eftir Reykjanesbrautinni eins og gert hefur verið. Ég sé heldur enga sérstaka ástæðu til að stunda landflutninga á Reykjanesbrautinni með olíuvörurnar eins og í pottinn er búið. Það ætti að vera hægt að flytja þetta sjóleiðina með tiltölulega öruggum og auðveldum hætti.

Ég vil síðan í sambandi við það sem sagt hefur verið um tvöföldun Reykjanesbrautar lýsa þeirri skoðun minni að þar sé mjög þarft mál, þegar menn tala um tvöföldun Reykjanesbrautarinnar. Ég styð það. Ég held að það mundi auka mjög umferðaröryggi á þeirri leið. Þetta er ekki bara leið þeirra sem í Reykjanesbæ búa heldur allra landsmanna, í mismunandi miklum mæli auðvitað, en það skiptir verulegu máli að jafnfjölfarin leið og Reykjanesbrautin er verði gerð með tveimur akreinum í báðar áttir og aðskildum akreinum. Það mundi draga verulega úr slysahættu. Ég tel þó að þrátt fyrir slíka aðgerð verði hætta á mengun varðandi olíuflutninga samt sem áður veruleg sérstaklega vegna jarðvegsins á Reykjanesskaganum. Það gæti hreinlega verið óverjandi að halda slíkum flutningum áfram. Þess vegna tek ég mjög undir það sem lagt er til í þáltill. að þetta verði kannað mjög gaumgæfilega.