Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 19:26:28 (4961)

2000-03-06 19:26:28# 125. lþ. 72.7 fundur 357. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur# (náttúrugripasöfn) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[19:26]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég er einn af flm. þessa frv. sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson á þó óskorað frumkvæði að. Ég tel að mikið heillaspor yrði fólgið í samþykkt þessa frv. En í tilefni af því þykir mér rétt að rifja upp að á þeim tíma er menn voru að setja þessi lög, árið 1992 ef ég man rétt, var það meðvitað gert að skilja í reynd á milli náttúrgripasafna og náttúrustofa. Bæði var að það ríkti ekki full eining um að koma þessu máli í gegn, m.a. af þeim ástæðum sem komu fram í máli hv. þm., að sumir horfðu í kostnaðinn. Sumir töldu að ef náttúrugripasöfnin yrðu líka sett þarna upp og þættuð saman við náttúrustofurnar kynni það að leiða til óhóflegs kostnaðar þegar fram í sækti.

Reyndin varð síðan sú, herra forseti, að þegar búið var að setja upp náttúrustofu á Bolungarvík var eiginlega frá upphafi að frumkvæði heimamanna sett á fót náttúrugripasafn. Reynslan af þeirri nýbreytni er slík að það er auðvelt að endurskoða hinn upphaflega tilgang sem lá að baki frv. sem varð að lögum frá 1992 og draga þá ályktun af reynslu Bolvíkinga að það sé farsælt að reka þetta tvennt saman.

Ég held líka að það skipti máli fyrir náttúrustofurnar sem hafa sannarlega sannað gildi sitt að bæta þannig vísindalegt umhverfi þeirra. Náttúrustofurnar sem nú eru komnar á legg hafa farið fram úr björtustu vonum okkar sem á þeim tíma stóðum að lögunum. Hvarvetna sem þær hafa komist á legg hafa sprottið upp mikilvægar rannsóknir. Ég held að ég geti fullyrt að víðast hvar hefur líka tekist að afla einhvers konar nýrra peninga, styrkja erlendis frá og innan lands. Þau tækifæri sem bjóðast með náttúrustofunum eru einfaldlega slík að vísindamenn úti í heimi og líka hér við vísindastofnanir í Reykjavík líta á það sem eftirsóknarvert tækifæri að starfa með þeim vísindamönnum sem hafa ráðist til starfa við þær. Það hefur verið ánægjuefni að sjá að mikil eftirsókn hefur verið í að komast í þessi störf. Ungt vísindafólk hefur sótt í að komast í þau störf úti á landsbyggðinni. Ég held að við höfum séð alls staðar fram á samstarf við heimamenn á öðrum sviðum, vísindamenn sem tengjast útibúum annarra stofnana eins og Hafró, jafnvel Veiðimálastofnunar hygg ég á stöku stað og náttúrufræðivísindamanna annarra. Þetta er ákaflega gott.

Ég bendi t.d. á að það var ekki síst í kringum náttúrustofuna sem komið var á fót í Vestmannaeyjum að til varð kjarni vísindamanna, örlítið vísindasamfélag sem hefur að ég held skipt sköpum á margan hátt fyrir byggðarlagið. Þó er fátt eitt komið í ljós sem ég held að það eigi eftir að færa því.

[19:30]

Ef menn fara þessa leið held ég að þeir muni styrkja mjög umhverfi þeirra rannsókna og þann rannsóknaranda sem ríkir á náttúrustofunum. Ef við samþykkjum þetta frv. þá verður það ekki aðeins til þess að ríkið mundi koma inn í stofnkostnað náttúrugripasafnanna heldur mundi það borga laun eins nýs vísindamanns og það skiptir verulega miklu máli.

Ég vil líka láta þess getið, herra forseti, að náttúrstofurnar hafa orðið miklu meiri hvati rannsókna en við töldum að kynni að gerast þó að við vonuðumst e.t.v. til þess. Náttúrugripasöfn eru mjög víða ákaflega mikilvægt tæki við rannsóknir og ekki síst hvers kyns kennslu. Þegar rannsóknir og kennsla fara saman er það ákaflega hallkvæm blanda. Ég minni á að Jónas Hallgrímsson, sá merki náttúrufræðingur og það mikla skáld, átti sér þá ákaflega dýrmætu hugsjón að koma upp náttúrugripasafni á Íslandi. Í þann mund sem fætur hans urðu kaldir þá hafði hann á prjónunum áætlanir um að koma til Íslands og fá hér starf sem kennari, fyrst og fremst til að geta komið upp náttúrugripasafninu sem hann hafði aflað til á rannsóknarferðum sínum um Ísland, en hann var um sína daga víðförlasti Íslendingur hér innan lands. Því miður sá hann ekki þessa hugsjón sínar rætast en ástæðan fyrir því að hann barðist af slíkum þrótti fyrir því að koma náttúrugripasafni á fót hér á Íslandi var sá skilningur hans, sem kom fram aftur og aftur í bréfum frá honum, að náttúrugripasafn af þessu tagi væri undirstaða kennslu og frekari rannsókna.

Hv. flm., Einar K. Guðfinnsson, benti á að tækninni hefur undið mjög hratt fram. Náttúrugripasöfn samtímans eru allt öðruvísi en náttúrugripasöfn fyrir nokkrum áratugum. Sama er auðvitað hægt að segja um hvers kyns söfn. Með margmiðlunartækninni skapast möguleikar til þess að sýna náttúruna, þróun hennar og breytingarnar sem á henni verða af völdum hennar sjálfrar eða mannskepnunnar, framkvæmda okkar, í allt öðru ljósi en áður. Ég held að þar sem tekst að koma upp svona myndarlegum náttúrugripasöfnum í tengslum við náttúrustofur muni það verða mikil lyftistöng fyrir kennslu í viðkomandi samfélagi.

Þessi árin erum við líka að flytja þekkingu, fjármagn og atgervi út á landsbyggðina, t.d. með því að koma upp háskóladeildum og deildum við framhaldsskóla ákaflega víða. Þessi þróun, sem farið hefur af stað á allra síðustu árum, var umdeild í fyrstu en eins og hv. þm. segir réttilega þá er þar um að ræða meðvitaða byggðastefnu.

Ég held að þetta sé ákaflega farsælt skref inn á þennan veg. Ég held að ef þetta tekst jafn vel og okkur tókst með náttúrustofurnar þá muni þetta verða veruleg lyftistöng fyrir hvers konar nám og rannsóknir sem tengjast menntakerfinu, ekki síst háskóladeildum sem eru að sjá dagsins ljós þessi missirin en líka framhaldsskólum. Ég held þess vegna, herra forseti, að það yrði ákaflega farsælt ef tækist að halda þeirri samstöðu sem fram kemur hjá flutningsmönnum þessa frv. og ná samþykkt þess í vetur. Sjálfur á ég sæti í umhvn. þingsins og mun ekki láta mitt eftir liggja þar, herra forseti.