Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 19:33:47 (4962)

2000-03-06 19:33:47# 125. lþ. 72.7 fundur 357. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur# (náttúrugripasöfn) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[19:33]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég fagna þessu frv. til laga um breytingu á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands sem hefur verið lagt fram. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram hjá flutningsmönnum, t.d. hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, um mikilvægi þess að styrkja náttúrugripasöfnin. Þessar tillögur höfða til þingmanna í öllum flokkum og ég trúi ekki öðru en að við náum samstöðu um þessa lagabreytingu. Þetta er mjög mikilvægt í stöðu okkar í dag þegar íbúaþróunin heldur áfram með jafnuggvænlegum hætti. Fólk er að flytjast af landsbyggðinni og áfram á höfuðborgarsvæðið og við þurfum að finna allar þær leiðir sem tiltækar eru til að styrkja byggð. Þetta er ein af þeim mörgu leiðum sem við getum farið og kostar ekki mikla peninga. Þarna er verið að tala um stöðugildi forstöðumanna á náttúrugripasöfnunum og sé miðað við allan þann kostnað sem byggðaröskunin veldur í þjóðfélaginu eru þetta ekki miklir peningar en geta breytt miklu.

Þetta hefur mikið að segja varðandi ferðaþjónustuna. Hér er markvisst hægt að byggja upp annars konar ferðaþjónustu en við horfðum til fyrir nokkrum árum síðan. Það er hægt að byggja upp ferðaþjónustu sem nýtir það sem hver staður hefur upp á að bjóða. Þannig mundi fólk stoppa lengur við, fara á söfnin, fá góðar upplýsingar um náttúrufar og mannlíf á hverjum stað. Þetta er svokölluð græn ferðamennska eða a.m.k. hluti af því að geta byggt hana upp.

Það að efla náttúrugripasöfnin og styrkja þau í samstarfi við náttúrustofurnar styrkir líka sjálfsvitund fólks í hverju byggðarlagi, þ.e. eflir vitundina um hver maður er. Þetta er minn staður, þetta er mitt umhverfi og það er sérstakt. Þetta er hluti af því að byggja upp sjálfstraust og slíka vitund hjá þeim sem búa úti á landsbyggðinni.

Ef við náum því að efla starf náttúrustofanna og náttúrugripasafnanna þá aukum við þjónustuna, styrkjum vísinda- og rannsóknastörf í landinu og svæðisbundin rannsóknastörf. Þetta er í raun grunnur að því að geta komið upp háskóladeildum út um land til að koma háskólanámi á sem víðast. Því námi verður ekki komið á nema hafa einhvern grunn til að byggja á og sá grunnur er svæðið þar sem deildin er sett niður.

Ég styð því einhuga þessa breytingu á lögum og vona að hún nái fram að ganga. Hún kemur inn á svo mörg svið, bæði í atvinnulífinu, í menntun alveg frá grunnnámi og upp í háskóla. Hún styrkir rannsóknarstörfin og sjálfsvitund fólks.