Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 19:43:19 (4964)

2000-03-06 19:43:19# 125. lþ. 72.7 fundur 357. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur# (náttúrugripasöfn) frv., Flm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[19:43]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins með örfáum orðum þakka þær góðu viðtökur sem þetta frv. hefur fengið. Ég er sammála því að full efni séu til að ætla að um það geti tekist ágæt sátt. Þetta er auðvitað ekki hápólískt mál heldur mál sem horfir til framfara og heilla, eins og ég held að komist sé að orði í grg. sem fylgir frv. Ég vænti þess að við getum fundið á þessu sameiginlega niðurstöðu.

Menn hafa rætt töluvert mikið um náttúrustofurnar og það er auðvitað fullt tilefni til þess. Auðvitað mætti vel hugsa sér í því sambandi að þar sem náttúrustofurnar og náttúrugripasöfnin ynnu saman lytu þau stjórn sama forstöðumanns til þess að auðvelda allt stjórnskipulag og gera það auðveldara og hagkvæmara í rekstri. Það finnst mér hlutur sem hv. umhvn. gæti velt fyrir sér. Ég get vel ímyndað mér að það gæti vel átt við þegar um er að ræða samstarf þessara tveggja stofnana.

[19:45]

Ég er líka alveg sammála því sem hér hefur komið fram, að með því að opna fyrir stuðning hins opinbera við náttúrugripasöfn væri um leið verið að leggja heilmikið af mörkum fyrir kennslu, t.d. á framhaldsskólastigi. Mér er kunnugt um að náttúrugripasöfnin hafa verið notuð sem kennslutæki fyrir ungmenni þar sem þau hafa verið opnuð. Það er enginn vafi á því að af þessu er heilmikið gagn. Þegar ég var sjálfur við nám vorum við ekki svo heppin að hafa náttúrugripasafn á svæðinu en við gátum sótt það lengra. Mér er engin launung á að auðvitað var tækifærið til að skoða náttúrugripasöfn af þessu tagi til að glæða áhuga manns á náttúrunni.

En, virðulegi forseti, ég held að í sjálfu sér þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég ítreka þakkir fyrir þessar góðu viðtökur sem gefa fullt tilefni til að ætla að þetta mál megi hljóta afgreiðslu síðar á þessu þingi.