Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 13:37:11 (4968)

2000-03-07 13:37:11# 125. lþ. 73.96 fundur 361#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[13:37]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að það eru ekki nógu góð svör sem stundum berast við fyrirspurnum. Ég held að full ástæða sé til að forsn. skoði málið og fari yfir það. Það er spurning hvort ekki þurfi að liggja fyrir einhvers konar hugmyndir eða reglur sem hægt væri að senda þeim aðilum sem verið er að biðja um upplýsingar um þannig að einhverjar siðareglur séu um hvernig svörin eru útbúin. Ég verð að segja að það sem hæstv. viðskrh. sagði áðan, að þær upplýsingar sem beðið var um í þessu tilfelli lægju ekki fyrir í bönkunum, tel ég algjörlega fráleitt. Það er einfaldlega ekki hægt að reka bankastofnanir og hafa ekki upplýsingar um þau atriði á takteinum sem þarna var farið fram á að upplýst væri um. Ég fullyrði reyndar að upplýsingar í því formi sem þarna var talað um liggja fyrir í bönkunum því það er nauðsynlegt til að hægt sé að stjórna lánveitingum og fylgjast með því sem er að gerast. En það er önnur saga.

Ég er fyrst og fremst að taka undir með hv. þm. um að tekið verði á hvað varðar svör við fyrirspurnum frá þingmönnum þannig að það eftirlitshlutverk sem verið er að rækja hér á hv. Alþingi verði gert sem best. Ég tel að full ástæða sé til að forsetar taki þetta upp og skoði og reyni að standa að því að tryggja betri svör en við höfum verið að sjá undanfarið.