Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 13:46:54 (4975)

2000-03-07 13:46:54# 125. lþ. 73.96 fundur 361#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), KHG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[13:46]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Mér finnst gæta nokkurs misskilnings á hlutverki alþingismanna í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem gerir mikið úr því að þeir hafi eftirlitsskylduhlutverki að gegna. Í aðalatriðum er það ekki hlutverk alþingismanns að vera eftirlitsaðili heldur aðili sem setur lög. Það er fyrst og fremst skylda alþingismanna að setja lög og vera hluti af löggjafarvaldinu og löggjafarvaldið er ekkert sérstakt eftirlitsvald með framkvæmdarvaldi og enn síður með dómsvaldi. Mér finnst því þessi skírskotun hv. þm. til hlutverks síns sem eftirlitsaðila vera mjög orðum aukin og vil árétta að aðalhlutverk þingmannsins er að setja lög og leikreglur sem öðrum er falið að framfylgja, m.a. eftirlitsstofnunum. Við höfum sérstakar stofnanir til að hafa eftirlit með bönkunum þannig að þingmenn þurfa í sjálfu sér ekki að vera í því hlutverki.

Ég vil svo segja út af því sem kom fram hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni um veðsetningu sameigna þjóðarinnar að eftir því sem mér er best kunnugt um eru veðmálabækur opnar þannig að hann og hver sem það vill getur fengið að vita hvaða veðsetningar hvíla á hvaða skipi sem er. Ég veit því ekki annað en það sé fullkomlega opin bók fyrir hvern landsmann.

Í lögum um samningsveð er gagnstætt því sem þingmaðurinn hélt fram sérstaklega tekið fram að bannað er að veðsetja aflahlutdeild.