Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 13:52:07 (4979)

2000-03-07 13:52:07# 125. lþ. 73.96 fundur 361#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[13:52]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þau lög sem Alþingi setti um samningsveð er einhver sérkennilegasta lagasmíð sem héðan hefur komið og margt skrýtið hefur komið í gegnum tíðina. Ég er ekkert hissa á því þó að einhverjir þingmenn vilji fá að vita það og spyrjist fyrir um það hvernig þessi lög hafa virkað og þarna er verið að gera það.

Það sem hæstv. viðskrh. sagði hér áðan að bannað væri að veðsetja veiðiheimildir eða sameign þjóðarinnar með þessum lögum er þvílíkur útúrsnúningur að enginn þingmaður og alls ekki nokkur hæstv. ráðherra ætti nokkurn tíma að taka sér slíkt í munn. Í greinunum sem á eftir koma er gengið þannig frá því að sá sem er handhafi veðsins getur ráðið því hvenær aflaheimildirnar eru fluttar af skipunum. Það er ekki ástæða til þess að vera að endurtaka þetta sífellt en það þarf þó að gera þegar hv. þingmenn eða hæstv. ráðherrar ganga í pontu á Alþingi og tala eins og bannað sé að veðsetja veiðiheimildirnar. (Gripið fram í: Það er bannað.) Það er bannað skv. 1. gr. laganna en leyft samkvæmt greinunum sem koma á eftir.

(Forseti (GÁS): Forseti vill benda á að hér er ekki rædd veðsetning veiðiheimilda.)

Hæstv. forseti. Fyrirspurnin sem við erum að ræða um var til komin vegna þess að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var að reyna að komast að því hvaða áhrif þessi lagasetning hefði haft og þess vegna hefur þetta mál borist í tal.

Ég ítreka að ég tel að full ástæða sé til þess að fylgja eftirlitshlutverki þingsins eftir og ég vil gera meira úr því en ýmsir aðrir sem hafa talað hér á undan.