Málefni Þjóðminjasafnsins

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 13:56:17 (4981)

2000-03-07 13:56:17# 125. lþ. 73.97 fundur 364#B málefni Þjóðminjasafnsins# (umræður utan dagskrár), Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[13:56]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Árið 1985, fyrir 15 árum, hófst upp mikil umræða um húsakost menningarstofnana og bar þá hæst umræðu um Þjóðleikhús og Þjóðminjasafn. Hafist var handa um breytingar á Þjóðleikhúsinu og skipuð nefnd um málefni Þjóðminjasafnsins. Meðal skilgreinds verksviðs hennar var að efla vöxt og viðgang Þjóðminjasafns Íslands. Upp úr starfi nefndarinnar hófst undirbúningur að endurbótum á húsakosti safnsins og samin voru ný þjóðminjalög sem samþykkt voru á Alþingi í maí 1989. Síðan eru liðin 11 ár. Miklu fé og mikilli fyrirhöfn hefur verið varið í undirbúning viðgerða á safnhúsinu við Suðurgötu en afar lítið virðist þokast í viðgerðinni og hvað varðar vöxt og viðgang stofnunarinnar þá er ástandið daprara en safnið og þjóðin eiga skilið. Sýningar safnins hafa verið lokaðar í hálft annað ár.

Þau rök voru notuð á sínum tíma að nauðsynlegt væri að loka þeim til að gera mætti við húsið á skömmum tíma. Síðan höfum við aðeins fengið fréttir um það að enn muni dragast á langinn að þær opni aftur. Upplýsingar hæstv. menntmrh. sem hann gaf í desember sl. segja að við megum bíða til ársins 2002. Vinnustofur safnsins hafa verið fluttar í bráðabirgðahúsnæði, sem hæfir á engan hátt metnaðarfullri starfsemi menningarstofnunar, og fréttir af innra starfi þess hafa opinberað að þar er ástandið afar bágborið.

Hverjar eru skýringarnar á þessum seinagangi og ástandinu í heild þvert ofan í fagurgala stjórnvalda í 10--15 ár um endurbætur á húsakosti og eflingu safnsins? Ég rifja upp endurbæturnar í Þjóðleikhúsinu sem fóru fram um líkt leyti og Alþingi samþykkti hin nýju þjóðminjalög. Í því tilviki gengu hlutirnir fyrir sig á forgangshraða eins og eðlilegt er þegar loka þarf öflugri, opinberri menningarstofnun sem er ekki gert nema í neyð. En það virðist gegna öðru máli um Þjóðminjasafnið. Ellefu ára þóf og svo lokun í fjögur ár eða meira. Er ekki eðlilegt að draga yfirstjórn Þjóðminjasafnsins til ábyrgðar? Ég spyr: Hver er ábyrgð þjóðminjaráðs, framkvæmdastjóra og byggingarnefndar á því sleifarlagi sem hefur verið í byggingarmálum safnsins?

Svo eru það fjármálin. Formaður þjóðminjaráðs, sem er einnig formaður byggingarnefndarinnar og formaður nefndar sem á að annast heildarlöggjöf safna, endurskoðun á lögum um fornleifar, menningararfinn, og húsafriðun, maðurinn sem gegnir öllum þessum embættum, skipaður af hæstv. menntmrh., hefur fullyrt í fjölmiðlum að einungis lítill hluti kostnaðarins við flutning safnsins í geymsluhúsnæði í Kópavogi og skrifstofuhúsnæði í Garðabæ sé á ábyrgð byggingarnefndarinnar. Á móti er því haldið fram af framkvæmdastjórninni að stór hluti umframeyðslunnar á síðasta ári sé á ábyrgð byggingarnefndarinnar en umframeyðslan, þessar 46 millj. sem styrinn stendur um núna, er auðvitað aðeins angi af miklu stærra máli.

Hvað er rétt í þessum efnum? Hvernig hefur fjárveitingum til byggingarnefndarinnar verið háttað og eftir hvaða áætlunum hefur verið unnið? Varla hefur verið farið út í aðrar eins framkvæmdir án þess að fyrir hafi legið áætlanir um kostnað, fjármögnun, ábyrgð, tíma og síðast en ekki síst starfsemi safnsins á endurbótatímanum. Eða voru kannski engar áætlanir gerðar? Getur verið að orð fyrrverandi formanns þjóðminjaráðs, hæstv. samgrh. Sturlu Böðvarssonar, séu mergurinn málsins þegar hann segir fyrir skemmstu, með leyfi herra forseta, ,,að dálítið hafi verið rennt blint í sjóinn með það hversu mikill kostnaður yrði af þessum tilfæringum``?

En svo að ég nefni Þjóðleikhúsið aftur til sögunnar í þessu sambandi, herra forseti, var kostnaður við endurbætur þess alfarið á ábyrgð byggingarnefndar og aldrei blandað saman við almennan rekstur stofnunarinnar á viðgerðartímanum. Starfsmannafundir Þjóðminjasafnsins lýstu því yfir nýverið að uppsögn fjármálastjórans beri vitni um bráðræði og örvæntingu þjóðminjavarðar, sérstaklega í ljósi þess að fjármál stofnunarinnar sæta nú rannsókn í menntmrn. enda hafði fjármálastjórinn ekki brotið af sér í starfi og sú fullyrðing er studd þeim rökum að hann hafi aldrei hlotið áminningu yfirmanns stofnunarinnar. Það virðist a.m.k. liggja fyrir að byggingarnefndin hafi ekki staðið við fyrirheit sín um fjármögnun flutninganna sem leiddi til þess að fjárhagur safnsins versnaði sem leiddi aftur til þess að þjóðminjavörður rak fjármálastjórann. Þessi atburðarás vekur upp spurningar um hvort formaður þjóðminjaráðs og þjóðminjavörður séu að skjóta sér undan ábyrgð með vinnubrögðum sínum. Svo er ekki úr vegi að spyrja: Hver er ábyrgð ríkisstjórnarinnar og menntamálaráðherra á þessu ástandi og hver er þáttur menntmrh. í framvindu þessara mála? Hvernig vill ráðherrann skýra það átakanlega misræmi sem er milli yfirlýstrar stefnu um framtíð safnsins og þess ástands sem það hefur komist í undir stjórn hans?

Ekki verður betur séð, herra forseti, en að vegur safnsins og virðing hafi dvínað jafnt og þétt síðan nefnd sú er ég nefndi í upphafi máls míns var skipuð og átti einmitt að leita leiða til að auka hag þess.

Herra forseti. Við þurfum á öflugum menningarstofnunum að halda, stofnunum sem eiga að finna til sín fyrir tilstilli stjórnvalda, stofnunum sem standa opnar hvern dag ársins og stofnunum sem finna að þær eiga bakhjarl í stjórnvöldum og Alþingi Íslendinga.