Málefni Þjóðminjasafnsins

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 14:01:43 (4982)

2000-03-07 14:01:43# 125. lþ. 73.97 fundur 364#B málefni Þjóðminjasafnsins# (umræður utan dagskrár), menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[14:01]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Árið 1991 var hafist handa við aðgerðir í húsnæðismálum Þjóðminjasafns Íslands. Síðan var skoðað hvort byggja ætti nýtt sýningarhús við Suðurgötu, hvort flytja ætti starfsemi safnsins í SS-húsið á Laugarnestanga en síðan var ákveðið í ríkisstjórninni 21. febrúar 1995 að nýta núverandi safnahús og ganga til samninga við Háskóla Íslands um nýtingu á lóðum og eignum í nágrenni við safnahúsið. Í nóvember 1997 var gert samkomulag við Háskóla Íslands um lóðamál og aukið húsrými fyrir safnið og þar með má segja að frá og með árinu 1997 hafi náðst sá grundvöllur í þessu máli sem síðan hefur verið starfað eftir varðandi uppbyggingu Þjóðminjasafnsins á sínum gamla stað við Suðurgötu. Unnið hefur verið samkvæmt áætlun sem þá var gerð og þá ræddu menn um að það mundi kosta um 800 millj. kr. að búa safninu góðan framtíðarstað í safnahúsinu með þeim breytingum sem þá voru fyrirhugaðar.

Þá hafði verið unnið við viðgerðir utan húss á safnahúsinu á árabilinu 1991--1997 fyrir um 170 millj. kr. Það blasti því við að kostnaður við þessar framkvæmdir yrði í kringum 1 milljarður kr.

Þegar þetta var ákveðið lá einnig ljóst fyrir að búa yrði safnmununum ákveðinn samastað á meðan unnið væri að viðgerðinni. Síðan var ráðist í að koma munum fyrir í Vesturvör í Kópavogi og síðan hefur sú ákvörðun verið tekin sem er liður í öllu þessu að búa þeim munum varanlegan og góðan samastað með viðunandi hætti. Uppfylltar eru því allar ströngustu kröfur um húsakost og geymsluhúsnæði og þeim framkvæmdum er lokið, þeim lauk á síðasta ári.

Og nú er unnið að því að endurgera safnahúsið sjálft, og er gert ráð fyrir að því ljúki á árinu 2002 og unnt verði að flytja inn í húsið um áramótin 2002--2003 ef þessar áætlanir ganga eftir. Það var alltaf ljóst að loka yrði safninu --- þess vegna m.a. skoðuðu menn hvort skynsamlegt væri að flytja safnið í SS-húsið svokallaða því þá þyrfti aldrei að loka því --- um lengri eða skemmri tíma ef ákveðið yrði að það yrði á sama stað við Suðurgötu. Það er sá gangur mála sem nú stendur yfir að safnið er lokað á meðan verið er að breyta því og hv. þm. geta farið og kynnt sér þær miklu framkvæmdir sem unnið er að í húsinu sjálfu núna. Ég fullyrði að húsið mun nýtast miklu betur og allar aðstæður verða mun betri en áður hefur verið fyrir safnið og það verður fært í nútímahorf og búið verður mjög glæsilega um munina og alla aðstöðu fyrir áhorfendur og gesti til þess að kynna sér það sem í safninu verður.

Á þessu ári eru til ráðstöfunar 180 millj. kr. til framkvæmda við þessar byggingarframkvæmdir og ég hef lagt fyrir ríkisstjórnina tillögu um það að á næsta ári verði varið 260 millj. kr. úr Endurbótasjóði menningarstofnana og sömu fjárhæð á árinu 2002, 260 millj. kr. úr Endurbótasjóði menningarstofnana, til að vinna að þessu máli og þá verði náð endum saman varðandi fjármál framkvæmdanna. Ég sé ekki annað en að þetta gangi allt eftir eins og upp var lagt frá og með árinu 1997.

Hið eina óvænta sem hefur gerst má segja að hafi verið hinar ströngu og auknu kröfur sem voru gerðar til umbúnaðar í geymsluhúsnæðinu í Vesturvör í Kópavogi, en ég fullyrði að fullnægt var öllum þeim kröfum og það eru fá söfn í Evrópu, ef ekki heiminum öllum, sem geta státað af jafngóðri aðstöðu til geymslu sinna muna og Þjóðminjasafn Íslands gerir. Það var löngum gagnrýnt að þannig væri búið að Þjóðminjasafninu, að munir þess væru í hættu, jafnvel í safnahúsinu sjálfu hvað þá heldur fyrir utan það. Nú hefur verið bætt úr því.

Varðandi það mál sem hefur verið á döfinni, uppgjörsmálin á milli byggingarnefndar og annarrar fjármálastarfsemi Þjóðminjasafnsins, þá er það svo að þeim málum beindi þjóðminjaráð sérstaklega til menntmrn. og þau eru nú í skoðun m.a. undir forustu Ríkisendurskoðunar og ég geri ráð fyrir að alþingismenn eins og aðrir fái upplýsingar um þær athuganir og þær niðurstöður þegar þær liggja fyrir og er unnið að þeim af óhlutdrægum fagmönnum sem leggja mat á það og koma þá væntanlega með það til mín og annarra sem vilja láta sig málið skipta hvernig staðið var að þessu, hvernig staðið var að ákvörðunum, hvar þessi mörk á að draga o.s.frv. Ég er fullviss um að þingheimur verður upplýstur um það þegar að því kemur.

Ég fullyrði að aldrei í sögu Þjóðminjasafnsins frá því að það var stofnað hefur verið unnið að jafnmiklum endurbótum og umbótum í starfi safnsins.