Málefni Þjóðminjasafnsins

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 14:10:43 (4985)

2000-03-07 14:10:43# 125. lþ. 73.97 fundur 364#B málefni Þjóðminjasafnsins# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[14:10]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er vissulega við hæfi að þessi umræða fari nú fram utan dagskrár á Alþingi, svo alvarlegir hlutir eru nú að gerast innan Þjóðminjasafnsins og hafa greinilega verið að gerjast þar um langt skeið. Það er einmitt langtímaþróunin sem mér er hugleikin auk þess sem ég tek að sjálfsögðu undir áhyggjur manna yfir því ófremdarástandi sem nú hefur skapast innan Þjóðminjasafnsins og leitt til brottreksturs og í kjölfarið uppsagna starfsmanna.

Sem betur fer er þessi umræða opin en ekki lokuð og í felum vegna þess að um er að ræða opinbera stofnun sem heyrir undir almannavald. Ég held að óhætt sé að segja að Íslendingum þyki vænt um Þjóðminjasafnið og vilji hlúa að því og safnamálum almennt. Menn gera sér grein fyrir því menningarlega hlutverki sem Þjóðminjasafnið og skyldar stofnanir sinna.

Í byrjun árs 1999 var sett á laggirnar stjórnskipuð nefnd sem falið var að undirbúa rammalöggjöf um safnamál og átti nefndin að ljúka störfum fyrir árslok 1999. Ég vil nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. menntmrh. hvað líði störfum þessarar nefndar og hvert framtíðarhlutverk hann sjái Þjóðminjasafninu. Það er mikilvægt þegar þessi mál eru rædd að menn hafi skýra framtíðarsýn.

Það er augljóst að niðurskurður á fjármunum til Þjóðminjasafnsin er valdur að þeim vandræðum sem við verðum nú vitni að, alla vega að verulegu leyti. Er e.t.v. með niðurskurði og þrengingum af mannavöldum innan Þjóðminjasafnsins verið að búa í haginn fyrir enn eina einkavinavæðinguna? Hæstv. menntmrh. er þekktur fyrir áhuga sinn á einkavæðingu og nægir þar að nefna Iðnskólann í Hafnarfirði.

Ég spyr þess vegna hreint út: Er verið að brjóta Þjóðminjasafnið niður og búta það niður til þess að geta kallað nýja rekstraraðila til sögunnar? Þetta gleddi án efa einkavini og menntmrh. losnaði við óþægilega umræðu í þingsölum og á opinberum vettvangi. Þetta yrði hins vegar ekki þjóðinni til hagsbóta. Þess vegna er spurt.