Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 14:35:29 (4991)

2000-03-07 14:35:29# 125. lþ. 73.4 fundur 210. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv. 109/2000, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[14:35]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Til umfjöllunar er frv. til laga um starfsréttindi tannsmiða og vil ég gera örstuttar athugasemdir við það að svo komnu máli. Ég held að ástæða sé til að staldra við 1. gr. þar sem segir:

,,Tannsmiðir með meistararéttindi geta á eigin ábyrgð smíðað og gert við tanngóma og tannparta og þá m.a. unnið við töku móta og mátun, enda séu ekki sjúklegar breytingar eða meðfæddir gallar í munni eða kjálka viðskiptavinar.``

Mér finnst ástæða til þess að staldra við þessa setningu: ,,enda séu ekki sjúklegar breytingar eða meðfæddir gallar í munni eða kjálka viðskiptavinar``. Það er álitamál hvort tannsmiðir hafi þá menntun og það inngrip að þeir geti metið slíkt. Þess vegna mun ég þegar málið kemur til kasta iðnn. vilja fá frekari umfjöllun um þau mál því að mér finnst í fljótu bragði að eðlilegra sé að tannlæknir með margra ára nám í sínu fagi gefi úrskurð til tannsmiðs um að ekki séu sjúklegar breytingar eða meðfæddir gallar í munni eða kjálka viðskiptavinar.

Ég geri mér grein fyrir því að það er verið að gera tillögu um nám, þ.e. réttindanám eða námskeið fyrir tannsmiði þannig að þeir geti fullnumið sig í fræðunum. Lagt er til í frv. að fræðilegi hlutinn sé samtals 68 tímar og klínískur hluti 65 tímar og liðast þetta í nokkra þætti; bitfræði 8 tímar, tannskemmdir 4 tímar, meinafræði munnhols 6 tímar, tannholdsfræði 4 tímar, tannsmíði 44 tímar, samtals 68 tímar, og síðan klíníski hlutinn 65 tímar. Það verður að segjast eins og er að þetta er í fljótu bragði ansi mikil skemmri skírn og ég vil árétta það að ég vil staldra við þennan hluta 1. gr. Út frá mínum bæjardyrum séð ætti tannsmiðurinn að geta tekið við og unnið sín verk í munnholi eftir að tannlæknir er búinn að gefa vottorð um það að ekki séu sjúklegar breytingar eða meðfæddir gallar í munni eða kjálka viðskiptavinar.

Ég tel að það gegni svolítið öðru máli varðandi Ísland en mörg önnur lönd. Við erum ekki fjölmenn þjóð og höfum á að skipa stórri stétt tannlækna. Það er því ekki bein ástæða til þess að minnka vægi tannlækninga með þessum hætti og að við séum að gefa út leyfi fyrir pungapróf af þessu tagi.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan er að það er þessi þáttur eða hluti 1. gr. ,,enda séu ekki sjúklegar breytingar eða meðfæddir gallar í munni eða kjálka viðskiptavinar`` sem ég vil staldra við og ég tel að það eigi að vera á hendi tannlæknisins að gefa frá sér vottorð um að slíkt sé ekki fyrir hendi og þá geti iðnaðarmaðurinn, tannsmiðurinn, hafist handa.