Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 14:58:29 (4998)

2000-03-07 14:58:29# 125. lþ. 73.4 fundur 210. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv. 109/2000, KPál
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[14:58]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. sem er endurflutt og reynt hefur verið að bæta frá því það var fyrst lagt hér fram. Nú er búið að bæta við meira námi hjá tannsmiðum svo að þeir geti lögum samkvæmt smíðað tennur upp í sjúklinga eftir eigin geðþótta en ekki undir eftirliti menntaðra tannlækna.

[15:00]

Það hefur vakið hjá mér dálitla furðu að svo mikið skuli lagt upp úr því að veita þessi réttindi í ljósi þess að margítrekað hefur komið fram að sú menntun sem krafist er samkvæmt þessu frv. er miklu minni en tannsmiðir erlendis, t.d. í Danmörku, þurfa að afla sér til þess að fá þessi réttindi. Það er staðreynd. Það er sama hversu mikið er tönnlast á því að þetta nám sem verið er að fara út í hér eigi að vera fullnægjandi þá þarf þar, ef við tökum Danmörku sem dæmi, þriggja ára nám til viðbótar við það sem tannsmiðir hafa hér í dag. Það þarf þriggja ára nám til viðbótar en ekki fjögurra vikna námskeið. Þetta þýðir þá um leið að þetta nám mun ekki viðurkennt annars staðar í Evrópu.

Ég held að þetta sé í raun á misskilningi byggt og að jafnvel sé verið að ota fólki út í nám sem gagnast því lítið sem ekkert til framtíðar litið. Þetta kostar þar að auki töluverða peninga og ég get ekki séð að þeir komi til með að skila sér.

Það má heldur ekki gleyma því að tannsmíði, þ.e. að smíða falskar tennur eða góma, er mjög á undanhaldi vegna þess að framþróun í smíði tanna hefur leitt til þess að það er orðið miklu algengara að festa tennur í góm heldur en áður hefur verið þannig að tannsmíðar eru deyjandi og tannsmíðastéttin að hverfa sem fagstétt, ef það mætti orða það svo. Með því að löggilda þetta frv. er því jafnvel verið að lokka fólk út í nám sem ekki býr fólk undir neina framtíð. Störf sem krefjast þessa náms munu verða fá og fólk mun ekki hafa mikið að gera eftir þá menntun sem verið er að tala um hér. Ég held því að engum sé greiði gerður með því að koma slíku frv. í gegn. Miklu æskilegra hlýtur að vera að tannsmiðir á Íslandi afli sér þeirra réttinda sem nýst geta þeim alls staðar. Auðvitað væri eðlilegast að það væri þá með tannlæknum ellegar að þeir næðu sér í tannlæknanám ásamt því að vera tannsmiðir.

Mér finnst hæstv. ráðherra ekki gera nógu mikið úr því að tannheilsa Íslendinga er með eindæmum góð. Undir eftirliti tannlækna hefur náðst að skapa hér einhverja besta tannheilsu sem þekkist í heiminum. Það er viðurkennt og hefur oft verið tekið fram hversu vel að þeim málum hefur verið staðið af hálfu tannlækna. Þeir hafa haft forgöngu um það í samráði við stjórnvöld hvernig best sé barist gegn tannskemmdum, í skólum og með alls konar hjálparaðferðum, flúorskolun og fleira. Tannlæknar hafa staðið fremstir í flokki til þess að reyna að ná sem bestum árangri í tannhirðu og að lágmarka tannskemmdir. Þetta hefur leitt til þess að tannsmíðar eru ekki eins umfangsmiklar og áður var.

Herra forseti. Ég mundi því segja að það væri fyrst og fremst ástæða fyrir hv. iðnn. til að skoða þessa þætti og velta því fyrir sér hvort þeim einstaklingum sem hyggja á þetta nám sé nokkur greiði gerður með því að ýta undir væntingar um eitthvað sem verður ekki til staðar eftir nokkur ár vegna þess að framþróunin er sem hún er.

Hv. þm. Drífa Hjartardóttir sagði hér áðan að margir tannlæknar séu sammála þessu frv. Ég held að tannlæknastéttin sem slík hljóti að tala í gegnum tannlæknafélagið eða þau samtök sem eru í forsvari fyrir þá sem stétt. Ég veit ekki betur, og það hefur reyndar ítrekað komið fram, en að Tannlæknafélag Íslands sé algerlega mótfallið þessu frv. og telji þetta mikla afturför nema, og ég ítreka, nema tannsmiðir taki á sig sambærilegt nám og danskir tannsmiðir þurfa að leggja stund á til að öðlast þessi réttindi. Ég held að ekki sé hægt að segja að fjöldi tannlækna sé sammála þessu. Ég hef t.d. ekki hitt einn einasta. Það má vel vera að þeir séu einhverjir til. En aftur á móti hefur félag tannlækna lýst eindreginni andstöðu gegn þessu máli og ég held að það sé það eina sem við getum tekið mark á.

Herra forseti. Að öðru leyti vona ég að þetta mál fái vandaða umfjöllun í iðnn. Ég á ekki von á öðru en nefndarmenn taki á þessu af ábyrgð og innleiði hér ekki, eins og á að gera með þessu máli, eitthvert pungapróf.