Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 15:21:48 (5003)

2000-03-07 15:21:48# 125. lþ. 73.4 fundur 210. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv. 109/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[15:21]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Mér sýnist ætla að verða skiptar skoðanir um frv. sem hér er til umræðu, um starfsréttindi tannsmiða. Það kemur svolítið á óvart vegna þess að það er ekki eins og þetta sé nýtt mál og sé að birtast fyrst núna á síðustu mánuðum. Við höfum haft málið til umfjöllunar og umræðu beint og óbeint um einhver ár.

Árið 1994 lagði þáv. heilbrrh. Guðmundur Árni Stefánsson fram mál sem var efnislega samhljóða því sem hér er. Síðan hafa verið lögð fram frv. en ekki verið rædd og það hefur komið mér á óvart vegna þess að mér finnst að hér sé um sjálfsögð starfsréttindi að ræða. En ég heyri nú að það hefur trúlega verið erfitt fyrir stjórnarflokkana að fá heimild hjá þingflokkum sínum til að ræða málið hér.

Ég ber engan kvíðboga fyrir því að tannsmiðir fari að vinna í munnholi ef minnsta hætta er á að þar sé um einhverja sjúkdóma að ræða, án þess að senda viðkomandi til sérfræðings. Þeir munu að sjálfsögðu gera það. Þarna er eingöngu verið að veita þeim heimild til þess að vinna sjálfstætt við sitt fag. Þeir taka auðvitað fyrir það greiðslu og vinna verk sín eins og þeir hafa hingað til gert sem undirmenn tannlækna. Heilbrigðiskerfið er orðið dálítið flókið þegar kemur að tannlæknum. Þar eru tannréttingalæknar og tannholdssérfræðingar og fleira í þeim dúr. Þeir hafa allir leyfi til að sullast í munnholinu en tannsmiðum er það bannað þó mjög margir þeirra hafi til þess full réttindi eftir nám þeirra erlendis.

Í þessu frv. eru tekin af öll tvímæli þess efnis. Hæstv. ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði fyrir þessa starfsstétt, þ.e. að ef um minnsta grun um sýkingu eða veikindi í munnholi sé að ræða þá sé viðkomandi vísað til sérfræðings, sem ég er sjálf sannfærð um að þeir hefðu gert án þess að til kæmu reglur. Ég treysti þessari starfsstétt algerlega til þess. Þarna eru þó ákvæði um að ef brotið er gegn ákvæðum laganna, þ.e. ef þetta frv. verður samþykkt, þá varði það sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Ef tannsmiðir vinna í munnholi þar sem augljós merki eru um veikindi, sýkingu eða eitthvað slíkt án þess að senda til sérfræðings þá mun hægt að beita sektum eða öðrum refsiákvæðum. Ég tel sjálfsagt, miðað við alla þá umfjöllun sem hefur verið um starfsréttindi tannsmiða á undanförnum árum, að þetta frv. hljóti fljóta og góða afgreiðslu í gegnum þingið. Ég treysti því að frá því verði gengið.

Menn halda að þarna sé um einhver vafaatriði að ræða og að samstarfið sem verið hefur til staðar milli tannlækna og tannsmiða sé ótryggt. Þar hafa þó verið samstarfsmenn tannlækna en ekki sjálfstætt starfandi einstaklingar sem geta tekið við sjúklingum frá tannlæknum. Ef tannsmiðir fá það verkefni að smíða tennur þá hefur viðkomandi einstaklingur í flestum tilvikum farið til tannlæknis áður og annaðhvort gómurinn undirbúinn undir það að fá eitt sett eða tönn búin undir það að fá krónu. Það er liðin tíð held ég, nema hv. þm. Katrín Fjeldsted geti upplýst mig um annað, að ef einstaklingar sem fá tannpínu fari til læknis dragi hann tönnina úr. Þetta er liðin tíð. Í dag er samstarf milli þessara stétta og það mun auðvitað verða áfram en með aðeins öðrum hætti og eðlilegri að mér finnst.

Virðulegi forseti. Ég vona að þetta frv. fái fljóta og góða afgreiðslu og séu einhver vafaatriði í þessum greinum eða einhver atriði sem hv. þm. finnst að ekki hafi verið tekið nægilega vel á, þá hafa þeir möguleika á að koma sínum athugasemdum á framfæri inn í iðnn. Mér sýnist hæstv. ráðherra hafa sniðið af ýmsa agnúa sem voru á frv. áður og sé hér með vandað og gott frv. sem við ættum að afgreiða fljótt og vel.