Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 15:36:25 (5009)

2000-03-07 15:36:25# 125. lþ. 73.4 fundur 210. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv. 109/2000, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[15:36]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. er að flytja mál sem forveri hennar vann á sinni tíð. Ég efast ekki um að hæstv. ráðherra hafi lagt mikla vinnu í að kynna sér hvað felst í þessu frv. Mig langar samt til að fá fram frá hæstv. ráðherra hvort hann telji í raun ástæðu til þess, í ljósi þess að tannhirða og tannheilsa Íslendinga er í mjög góðu lagi, að taka einhverja sérstaka áhættu með því að gengisfella í þá vinnu sem fer fram í munni sjúklinga sem leita sér aðstoðar. Mér finnst sjálfum að um sé að ræða starfsstétt sem hefur sífellt minna að gera vegna þess að heilsufar að hefur batnað að þessu leyti og mér heyrðist ráðherrann í raun viðurkenna það í öðru orðinu. Ég tel því í sjálfu sér ekki ástæðu til að ýta fólki út í slíkt nám. Ég er undrandi yfir því að ekki skuli vera hægt að ná samkomulagi milli tannsmiða og Tannlæknafélagsins. Ég efast um að svo samningalipur manneskja eins og hæstv. iðnrh. er og hefur sýnt sig vera skuli ekki hafa lagt meira á sig til þess að ná samkomulagi um málið áður en þetta frv. kom hingað fram.