Starfsréttindi tannsmiða

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 15:39:49 (5011)

2000-03-07 15:39:49# 125. lþ. 73.4 fundur 210. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv. 109/2000, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[15:39]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil að lokum benda á það enn einu sinni að danskir tannsmiðir þurfa þriggja ára nám til viðbótar við það sem íslenskir tannsmiðir hafa í dag. Það felur annars vegar í sér formlega kennslu upp á tvö ár og hins vegar starfsnám í eitt ár. Það vekur mig til umhugsunar og ég skil ekki almennilega hvers vegna íslensk stjórnvöld, sem eru sífellt að krefjast betri og öruggari menntunar þegar um sérsvið er að ræða, fara þá leið að gefa slíkar undanþágur frá því sem almennt tíðkast í nágrannalöndum okkar, sem eru jafnfætis okkur í dag í tannheilsu, að við skulum vera að gefa upp boltann með að nám geti verið miklu styttra en tíðkast annars staðar. Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra segi mér í síðara andsvari, ef þess er nokkur kostur, hvers vegna ráðherrann telur að svo stutt nám hér geti gagnast okkur ef það er ekki hægt að nýta slíkt nám úti í Danmörku?