Álbræðsla á Grundartanga

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 15:43:59 (5014)

2000-03-07 15:43:59# 125. lþ. 73.6 fundur 371. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (fasteignaskattur) frv. 12/2000, iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[15:43]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga.

Síðastliðið haust tók Norðurál hf. ákvörðun um að stækka álver sitt á Grundartanga, úr 60 þús. tonnum í 90 þús. tonn, í samræmi við heimildir fyrirtækisins. Í 2. gr. laganna segir að álverið skuli í upphafi hannað til framleiðslu á um það bil 60.000 tonnum af áli á ári með möguleikum á aukinni framleiðslugetu.

[15:45]

Í kjölfar ákvörðunarinnar hafa staðið yfir viðræður við ýmsa aðila um nauðsynlegar breytingar á fyrirliggjandi samningum vegna stækkunarinnar, m.a. við sveitarstjórnir Hvalfjarðarstrandar- og Skilmannahrepps.

Í 6. gr. núgildandi heimildarlaga er fjallað um skattamál álversins á Grundartanga. Þar er m.a. kveðið á um álagningu og greiðslu fasteignaskatts vegna 60 þús. tonna álvers. Í þinglegri meðferð frv. til heimildarlaga á 121. löggjafarþingi var þetta fyrirkomulag tekið upp að tillögu iðnn. vegna ábendinga efh.- og viðskn. um að það fyrirkomulag sem frv. gerði ráð fyrir kynni að fela í sér of víðtækt framsal á skattlagningarvaldi til sveitarfélaga. Í frv. því sem hér er mælt fyrir er gert ráð fyrir að fasteignaskattsprósentan verði 0,75% og gjaldstofninn 826.444 þús. kr. Þá er lagt til að fasteignaskattur verði lagður á í fyrsta sinn 1. janúar næsta ár eftir að framleiðslugeta álversins er komin í 90 þús. tonna álframleiðslu á ári, en álagning fasteignaskatts var með sambærilegum hætti vegna fyrsta áfanga álversins. Fyrir liggur að Norðurál hf. og sveitarstjórnir Hvalfjarðarstrandarhrepps og Skilmannahrepps hafa náð samkomulagi um skattstofn, skatthlutfall og annað fyrirkomulag fasteignaskatts vegna stækkunarinnar. Þar sem ákvörðun hefur verið tekin um að stækka álverið er nauðsynlegt að gera breytingu á ákvæði fyrirkomulags fasteignaskatts vegna stækkunarinnar. Ekki er nauðsynlegt að breyta öðrum ákvæðum laganna.

Hæstv. forseti. Ég legg til að þessu frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. iðnn.