Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 16:07:29 (5018)

2000-03-07 16:07:29# 125. lþ. 73.7 fundur 359. mál: #A almenn hegningarlög# (vitnavernd, barnaklám o.fl.) frv. 39/2000, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[16:07]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að fagna fram komnu frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum sem hæstv. dómsmrh. hefur mælt fyrir. Þó vil ég sérstaklega fagna þar 6. gr. þar sem rætt er um að efni þar sem börn eru sýnd á kynferðislegan eða klámfenginn hátt verði refsiverðara en í gildandi lögum.

Dómsmrh. fór mjög vel yfir málið og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir gerði það einnig. Hv. þm. vakti máls á öðru frv. sem liggur hér fyrir og mun líka koma til umræðu í hv. allshn. þar sem ég á sæti. Það sem er auðvitað mikilvægast í þessu máli og við þurfum að taka á er að aðgangur að barnaklámi er orðinn greiðari, t.d. í gegnum netið og við þurfum að reyna að stemma stigu við því.

Það hefur auðvitað líka gerst að börn eiga orðið miklu greiðari aðgang að slíku efni sem er afar slæmt. Við þurfum líka að fara að skoða hvernig við getum læst ákveðnum síðum eða útilokað þær frá netinu. Ég því taka undir að það er mjög mikilvægt að hafa samstarf milli heimsálfa, ekki síst í tengslum við internetið.

Ég vil líka minna á að við þekkjum það að á Íslandi hefur verið gert upptækt mikið af myndum, klámfengnu efni þar sem börn hafa verið notuð. Ég þekki slíkt þar sem ég hef setið í kvikmyndaskoðun. Þarna er um mjög alvarleg mál að ræða.

Ég vil fyrst og fremst fagna þessu frv. vegna þess að þar eru hagsmunir barna hafðir í fyrirrúmi.