Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 07. mars 2000, kl. 16:13:49 (5020)

2000-03-07 16:13:49# 125. lþ. 73.8 fundur 204. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám) frv., Flm. BH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 125. lþ.

[16:13]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á almennum hegningarlögum á þskj. 238. Það er 204. mál. Mál þetta er flutt af öllum þingflokki Samfylkingarinnar en málið snýst í einfaldlega um að aukin refsing verði lögð við því að búa til, flytja inn eða dreifa barnaklámi.

Eins og ég tók fram áðan er þetta mál efnislega samhljóða breytingu sem hæstv. dómsmrh. hefur lagt til í frv. sem við ræddum hér áðan að gerð yrði á almennum hegningarlögum. Það er tekið svolítið öðruvísi á þessu formlega í sjálfri lagagreininni, þ.e. 210. gr. almennra hegningarlaga. En efnislega er málið samhljóða 6. gr. frv. sem mælt var fyrir áðan. Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um frv. en í því er lagt til að ný málsgrein bætist við 210. gr. hegningarlaga þar sem lögð verði sérstök refsing við því að búa til, flytja inn eða dreifa barnaklámi.

Flutningsmenn telja eðlilegt að það varði þyngri refsingu að búa til eða dreifa barnaklámi en þegar um fullorðna þátttakendur er að ræða en önnur brot skv. XX. kafla hegningarlaga eru höfð til viðmiðunar við ákvörðun refsirammans. Frumvarpið miðar að því að vernda börn frekar en nú er fyrir því kynferðislega ofbeldi sem framleiðsla á barnaklámi er og fyrir dreifingu á slíku efni.

Þegar skoðað var hvernig refsingu skyldi hagað við slíku broti var, eins og hér er tekið fram, horft til annarra brota samkvæmt XX. kafla hegningarlaga. Einnig er að finna í sænsku hegningarlögunum ákvæði svipað því sem hér er lagt til. Það er og efnislega svipað því sem hæstv. dómsmrh. leggur til í sínu frv. Þó er erfitt að skoða löggjöf Norðurlandanna til samanburðar svo vit sé í því að þar nálgast menn þetta mál, þ.e. barnaklám og refsingar sem snúa að kynferðisofbeldi gegn börnum og barnaklámi, frá mismunandi sjónarhóli. Þannig er ekki hægt að setja löggjöfina eins og hún er hér nákvæmlega í samhengi við lög annars staðar. Mér sýndist þó, er ég skoðaði skýrslu sem umboðsmaður barna lét gera fyrir nokkru síðan og ber yfirskriftina Heggur sá er hlífa skyldi, þar sem samanburður er gerður á löggjöf Norðurlandanna hvað þetta varðar, að sú breyting sem hér er lögð til sé í anda sænsku laganna.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til hv. allshn. til skoðunar og vonast til að það verði skoðað í samhengi við frv. hæstv. dómsmrh. um sama efni. Ég fagna því að nú skuli stefna í að tekið verði sérstaklega á innflutningi og dreifingu á barnaklámi, betur en verið hefur í hegningarlögum.