Samræmd slysaskráning

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 13:36:26 (5023)

2000-03-08 13:36:26# 125. lþ. 75.3 fundur 333. mál: #A samræmd slysaskráning# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[13:36]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Virðulegi forseti. Árlega slasast yfir 60 þús. Íslendingar eða tæplega fjórðungur þjóðarinnar. Um helmingur þeirra þarf á einhvers konar eftirmeðferð að halda vegna afleiðinga slysa. Þá þarf ekki að hafa mörg orð um aðrar afleiðingar slysa vegna vinnutaps, glataðra æviára og örorku og þjáninga einstaklinga sem í slysum lenda.

Það má benda á að slys eru algengasta dánarorsök þeirra sem eru á aldrinum 5--35 ára hér á landi. Um árabil hafa hugmyndir um samræmda slysaskráningu verið til umræðu og verið kappsmál margra aðila sem með starfi sínu koma að slysum eða slysavörnum. Á árinu 1987 skipaði þáv. hæstv. heilbrrh., Ragnhildur Helgadóttir, nefnd um varnir gegn slysum. Ein meginniðurstaða nefndarinnar var að brýnt væri að koma á samræmdri slysaskráningu hér á landi. Lög um slysavarnaráð voru síðan samþykkt í apríl 1994. Eitt meginhlutverk slysavarnaráðs er að stuðla að fækkun slysa, eins og segir í a-lið 2. gr. laganna, með leyfi forseta:

,,Tilgangur slysavarnaráðs er að stuðla að fækkun slysa. Þeim tilgangi skal ráðið ná með því að:

a. móta reglur sem miða að því að slys séu skilmerkilega skráð og sú skráning sé samræmd, jafnframt því sem séð verði um úrvinnslu þeirra upplýsinga og útgáfu á slysatölum.``

Lög um slysavarnaráð tóku gildi 1. janúar 1995 og starfar ráðið undir handarjaðri landlæknisembættisins.

Kostnaður vegna slysa, m.a. vegna líkamstjóns, eignatjóns, tapaðra vinnustunda og kostnaður vegna mannvirkja hér á landi er gífurlegur og nemur milljörðum kr. árlega. Árlegur kostnaður einungis vegna umferðarslysa hér á landi hefur verið metinn um 14--18 milljarðar. Þrátt fyrir þennan mikla kostnað sem einstaklingar, félög, fyrirtæki og samfélagið allt ber vegna slysa er staðreyndin sú að ekki liggja fyrir nákvæmar heildrænar upplýsingar um orsakir og eðli slysa hér á landi þar sem allir þættir málsins eru metnir, svo sem hvað viðkomandi var að gera þegar slysið varð, hvar slysið átti sér stað, aðstæður þegar slysið varð auk orsaka slysa og afleiðinga.

Ýmsar upplýsingar um slys liggja hins vegar fyrir hjá fjölmörgum aðilum, t.d. hjá lögreglunni, tryggingafélögum, heilbrigðisstofnunum, Vinnueftirlitinu, Umferðarráði, sveitarfélögum, Vegagerðinni, landlækni og Tryggingastofnun svo eitthvað sé nefnt.

Markmiðið með upplýsingasöfnun er þó mismunandi eftir því hvaða aðili á í hlut. Upplýsingar um sama slysið eða atvikið liggja því hjá mörgum aðilum. Við núverandi aðstæður færi mikil vinna í að tengja saman þessar upplýsingar í heildarmynd, ef það er á annað borð unnt, og þrátt fyrir miklu vinnu allra þessara aðila liggja þessar upplýsingar ekki fyrir á einum stað svo hægt sé að nota þær til grundvallar því að fækka slysum. Upplýsingar um orsök og eðli slysa eru forsenda þess að hægt sé að beita markvissum aðferðum til að lagfæra það sem úrskeiðis fer og fyrirbyggja slys í framtíðinni. Með samræmdri slysaskráningu hér á landi skapast tækifæri til að beina aðgerðum á rétta staði, að réttum aðilum, á réttum tíma og með réttum aðferðum. Ég varpa fram þessari fyrirspurn vegna þess að ég veit að ýmis vinna hefur verið í gangi í ráðuneytinu til þess að undirbúa þetta mál.