Samræmd slysaskráning

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 13:39:51 (5024)

2000-03-08 13:39:51# 125. lþ. 75.3 fundur 333. mál: #A samræmd slysaskráning# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[13:39]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að vekja máls á slysaskráningu með fyrirspurn sinni. Skemmst er frá því að segja að við vonumst til að samræmd skráning allra slysa hefjist um næstu áramót. Hér er um að ræða samvinnuverkefni margra aðila, slysavarnaráðs, heilbrigðisstofnana, Sjúkrahúss Reykjavíkur, ríkislögreglustjóra, Vinnueftirlits, Tryggingastofnunar ríkisins og ýmissa tryggingafélaga. Verkefnið er undir stjórn landlæknis.

Eftir mikla vinnu hefur náðst samstaða um að koma á slysaskrá Íslands og samræma allar upplýsingar sem inn í hana fara. Er það ekki síst að þakka áhuga og frumkvæði slysadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur og yfirlæknis hennar á undanförnum árum. Þetta er nú að takast undir forustu slysavarnaráðs og landlæknis.

Stefnt er að sameiginlegu skráningarkerfi allra þeirra sem skrá slys, þar með talið sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og annarra heilbrigðisstofnana, Vinnueftirlits ríkisins, Tryggingastofnunar ríkisins, lögreglu- og tryggingafélaga. Markmiðið er að skrá öll slys, þar með meiðsl sem verða á fólki. Umferðaróhöpp verði skráð, staður, tími kringumstæður og eðli slyss eða atviks. Skráin verður mjög umfangsmikil því gera má ráð fyrir að um 100 þúsund skráningar verði í slysaskrá Íslands árlega eða um 300 á dag. Landlæknir verður ábyrgur og umsjónaraðili skrárinnar.

Samræmd slysaskráning verður mjög gott og virkt tæki til að greina orsakir slysa og beita markvissum forvörnum og jafnvel afmörkuðum aðgerðum. Þannig má benda á að hraðar verður hægt að bregðast við hættulegum aðstæðum, t.d. í umferð, slysum sem hugsanlega eru algengari á vorin eða haustin, þau gætu verið tengd við byrjun skóla svo dæmi séu tekin. Ég vil minnast á að við höfum náð nokkrum árangri varðandi leiksvæði en á þeim málum hefur verið tekið sérstaklega.

Eftir sem áður munu samstarfsaðilar slysaskrárinnar halda þær skrár sem þeir telja nauðsynlegar í sínum störfum en samkeyrsla upplýsinga verður möguleg að vissu marki að fengnu leyfi viðkomandi aðila og tölvunefndar. Umsókn um starfsleyfi slysaskrár Íslands er nú til afgreiðslu hjá tölvunefnd. Fái umsóknin jákvæða afgreiðslu hjá nefndinni liggur fyrir að hanna hugbúnað sem er nauðsynlegur fyrir þessa skrá og verður það að sjálfsögðu boðið út.

Samkvæmt tímaáætlun verkefnisins er áætlað að prófun á hugbúnaðinum og verklagi hefjist haustið 2000 og skráning samkvæmt nýju fyrirkomulagi hefjist um næstu áramót.

Virðulegi forseti. Ég vonast til að þetta mikilvæga tæki muni komast í notkun á næsta ári með það að markmiði að fá betri yfirsýn yfir slys, aðstæður og eðli þeirra svo við getum í framtíðinni komið í veg fyrir slys og þær þjáningar sem í kjölfarið fylgja.